Margt er mannanna braskið.

Greinar

Braskið á alþingi varð landsfrægt um daginn, þegar stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins bauðst til að hleypa næstum hálfs árs gömlum bráðabirgðalögum í gegn, ef negldir yrðu dagar þingrofs, kosninga og nýs þings.

Ríkisstjórnin hafnaði þessu boði, ekki vegna þess að siðgæði hennar sé orðið svo miklu hærra en stjórnmálamanna almennt, heldur vegna þess að mjög óljóst er orðið, hverjir hafa og hafa ekki hag af staðfestingu laganna.

Meðalgreindum mönnum og hinum greindari hefur lengi verið ljóst, að Sjálfstæðisflokknum sem verðandi stjórnarflokki bráðliggur á, að lögin verði staðfest, þrátt fyrir langvinna og harða andstöðu þingmanna flokksins.

Í stað þess að nota tækifæri varaþingmanns Eggerts Haukdal og hleypa málinu í gegn, þæfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins málið svo lengi, að þeir neyddust síðan til að gera ríkisstjórninni tilboð um brask.

Á hinn bóginn hefur daufur stuðningur Alþýðubandalagsins við bráðabirgðalögin smám saman verið að dofna, því nær sem dregur kosningum. Þar mundu margir þingmenn gráta þurrum tárum, ef lögin féllu á jöfnum atkvæðum.

Þá eru stuðningsmenn þegar farnir að brýna Gunnar Thoroddsen og segja honum, að stöðvun þingmanna Sjálfstæðisflokksins á bæði stjórnarskránni og bráðabirgðalögunum sé meira en næg ástæða fyrir sérframboði hans.

Og almennt eru stjórnarsinnar síður en svo kvíðnir kosningabaráttu, þar sem unnt væri að nudda stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins upp úr því að hafa snöggeflt verðbólguna með því að fella bráðabirgðalögin.

Í þetta flókna brask blandast svo margvíslegir hagsmunir, sem tengjast stjórnarskrá og kosningalögum. Ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins mundu ekki gráta snöggt þingrof, sem hindraði lagfæringar á kosningarétti.

Aftur á móti er það útbreidd skoðun í Sjálfstæðisflokknum, að ekki megi tefla málum í svo snöggt þingrof, að ekki vinnist tími til að lagfæra atkvæðisrétt Reykvíkinga og Reyknesinga, með breyttum kosningalögum hið minnsta.

Þá er orðið sameiginlegt hagsmunamál Geirs Hallgrímssonar í sjöunda sæti og Ólafs Ragnars Grímssonar í fjórða, að með lagabreytingu fyrir kosningar verði gert kleift að hafa fleiri en einn uppbótarþingmann í hverju kjördæmi.

Hins vegar sjá ýmsir þingmenn úti á landi hættu á, að þeir verði að víkja fyrir flokksbræðrum í fjölmennari kjördæmum, jafnvel þótt stærðfræðingar sitji með sveittan skallann við að reikna alla þingmenn aftur inn á þing.

Slíkir misvísandi hagsmunir strjálbýlis og þéttbýlis skera þvert á flokkslínur. Innan hvers flokks valda þeir misjöfnum skoðunum á, hversu miklum tíma eigi að verja til að reyna að semja um lagfæringu atkvæðisréttar.

Þessir hagsmunir hafa bein áhrif á skoðun sömu þingmanna á því, hversu snöggt þingrof megi bera að. Þeir, sem kæra sig ekki um breytingar, vilja undir niðri, að bráðabirgðalögin falli og að þing verði strax rofið í kjölfarið.

Þess vegna er mikið braskað þessa dagana á þingi. Þess vegna er friður ótryggur innan þingflokka og hætta á hliðarhoppum einstakra þingmanna. Við slíkar aðstæður örvast vafasamt viðskiptalíf á Alþingi, svo sem dæmin sanna.

Jónas Kristjánsson.

DV