Markaðsgengi og -vextir

Greinar

Stjórnmálamenn og hagstjórar eiga sumir hverjir afar erfitt með að sætta sig við tilhugsunina um, að betra sé að leyfa ýmsum efnahagslegum fyrirbærum að vera í friði heldur en að skipuleggja þau á ýmsan hátt í samræmi við umdeilanlegar hugsjónir og fordóma.

Athyglisverðasta dæmið um þetta er skjaldborgin, sem slegin hefur verið um hina kolröngu skráningu Seðlabanka og ríkisstjórnar á gengi íslenzku krónunnar. Þetta er fastgengisstefnan, sem nú saumar að alvöruatvinnuvegunum og viðskiptastöðu þjóðarinnar.

Aðstandendur stefnunnar geta ekki af neinu viti svarað spurningunni um, hvers vegna ekki megi vera jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á erlendum gjaldeyri. Á tíma verðbólgumunar milli Íslands og útlanda er ótrúlegt, að fast ríkisverðlag sé betra.

Opinber skráning á verði ýmissa annarra fyrirbæra en erlends gjaldeyris hefur undantekningarlaust gefizt illa. Ríkisvaldið hefur stundum ákveðið að stöðva laun fólks eða verð þjónustu og vöru við ákveðnar krónutölur, en ævinlega runnið á rassinn með afskiptasemina.

Fastgengisstefnan er dauðadæmd. Fólk sér betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að hún felur í sér niðurgreiðslu á gjaldeyri til óhæfilega mikils innflutnings á erlendri vöru og þjónustu, sem magnar allt of mikla og vaxtadýra skuld þjóðarinnar í útlöndum.

Fólk sér líka betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að fastgengisstefnan refsar einmitt þeim atvinnuvegum og starfsmönnum, sem vinna að öflun gjaldeyristekna. Þessa má sjá ótal merki í taprekstri og lágum launum, allt frá Granda yfir í Flugleiðir.

Sjávarsíða Íslands mundi hagnast á að afsala sér núverandi byggðastefnu og fá í staðinn markaðsbúskap á gjaldeyri. Núverandi sníkjukerfi veitir sjávarsíðunni ruður af nægtaborði landbúnaðar og beinir athyglinni frá því, að Reykjavík er ekki óvinurinn, heldur gengið.

Gegn þessum röksemdum þýðir ekki lengur að þylja í sífellu, að gengislækkun ein leysi ekki allan vanda. Engin ein aðgerð út af fyrir sig leysir allan vanda. En stórt skref fram eftir vegi fælist í að taka kaleik gengisskráningar frá stjórnmálamönnum og hagstjórum.

Mjög svipað má segja um kröfurnar um, að gengi vaxta af fjárskuldbindingum verði skráð af öflugra handafli en nú er gert. Skuldarar segja, að lækka verði svokallaða okurvexti af lánum, því að atvinnulífið sé að sligast undir þeim. Samt vantar alltaf lán.

Vaxtalækkunarsinnar neita að horfast í augu við, að núverandi vextir eru ekki meiri okurvextir en svo, að fleiri vilja taka lán en veita lán, jafnvel til nýrra framkvæmda, sem menn gætu frestað, ef þeim ógnaði vaxtabyrðin. Í raun eru vextirnir nefnilega of lágir.

Þrátt fyrir nokkra hækkun raunvaxta úr neikvæðum tölum í jákvæðar á síðustu árum hefur enn aldrei reynt á, hvar jafnvægi næst milli eftirspurnar og framboðs. Tímabært er, að kákinu verði hætt og vöxtum leyft að finna sitt svigrúm á frjálsum markaði.

Valdastofnanir og valdamenn hafa tilhneigingu til að vilja ráðskast með margvísleg fyrirbæri, því að skipulagshyggja færir þeim völd, sem markaðshyggja tekur frá þeim. Þess vegna hefur þjóðin ekki enn fengið að hagnast á frjálsu markaðsgengi og markaðsvöxtum.

Valdamenn á Íslandi hafa alltaf verið hræddir við, að upplausn mundi fylgja í kjölfar afnáms opinberrar verðskráningar. Sá ótti hefur jafnan reynzt ástæðulaus.

Jónas Kristjánsson

DV