Markaðshyggja í austri

Greinar

Kosningaúrslitin í Austur-Þýzkalandi eru öðrum þræði eðlilegt framhald kosningaúrslita í öðrum löndum Austur-Evrópu í vetur. Eins og fyrri úrslit í austri fela þau í sér miklu meiri sveiflu til hægri en menn gerðu sér grein fyrir og spáð hafði verið í skoðanakönnunum.

Í ljós er að koma, að ekki er með skoðanakönnunum unnt að spá úrslitum frjálsra kosninga í Austur-Evrópu og þriðja heiminum með sömu nákvæmni og á Vesturlöndum. Í slíkum ríkjum eru hinir spurðu oft hræddir við að láta álit sitt í ljós af ótta við leynilögreglu.

Þannig urðu úrslitin í Nicaragua um daginn jafnóvænt og úrslitin urðu nú í Austur-Þýzkalandi. Í slíkum ríkjum óttans eru menn varir um sig, segja fátt við ókunnuga og bíða færis í kjörklefanum, þegar þeir fá tækifæri til að tjá hug sinn í frjálsum kosningum.

Ef við höfum hliðsjón af þessari staðreynd, skiljum við betur atburðarásina í Austur-Evrópu. Allir létu blekkjast af skoðanakönnunum þar eystra, þar á meðal valdhafarnir. Þeir töldu sér óhætt að leyfa kosningar, af því að þeir ofmátu fylgi sitt stórlega.

Pólska kommúnista renndi ekki grun í, að Samstaða mundi rúlla þeim upp í kosningum. Tékkneskir kommúnistar ímynduðu sér, að nýfengin sjálfstæðisstefna þeirra mundi skila þeirra manni í forsetaembætti. Þeir ætluðu að ríða sjálfir ölduna til hægri.

En Mazowiecki varð forsætisráðherra í Póllandi og Havel varð forseti í Tékkóslóvakíu. Í báðum þessum löndum eru hægri sinnaðir fjármálaráðherrar við peningavöld. Þeir eru svo hægri sinnaðir, að hér á landi væru þeir orðaðir við hina umdeildu frjálshyggju.

Lengi héldu menn, að Austur-Evrópa væri að feta einhvern óskilgreindan milliveg austræns ríkisbúskapar og vestræns markaðsbúskapar, eins konar sænska félagshyggju. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að þar mundi rísa svokallaður “sannur” sósíalismi.

Þetta hefur reynzt misskilningur. Austur-Evrópubúar vilja ekki sjá neitt, sem lyktar af sósíalisma. Þeir eru búnir að vera undirokaðir af honum áratugum saman og vilja núna steypa sér út í hreina markaðshyggju. Þeir vilja fara að græða peninga og það sem fyrst.

Langvinnar og þvingaðar ýkjur á einn veginn leiða um síðir til, að andstæðan fær útrás, þegar hlekkir bresta. Þesan leiðir til antiþesu. Því má búast við, að stjórnmál, og þá einkum stjórn fjármála og efnahags, verði afar hægri sinnuð til aldamóta í Austur-Evrópu.

Í Austur-Þýzkalandi kom greinilega í ljós um helgina, að kjósendur höfðu ekki miklar áhyggjur af missi ýmiss konar félagslegrar velferðar, svo sem auðvelds aðgangs að barnaheimilum og skólagöngu á ríkiskostnað. Þeir einblíndu á tækifæri markaðsbúskapar.

Þessi áherzla á framleiðslu verðmæta með markaðshyggju í stað áherzlu á dreifingu verðmæta með félagshyggju mun vafalítið hjálpa Austur-Evrópu til að komast á efnahagslegt flug og gera síðar kleifa félagshyggju á öðrum og auðugri grunni en nú er í þessum löndum.

Fyrstu árin verður auðveldast fyrir Austur-Evrópu að ráðast með ódýrar landbúnaðarvörur inn á vesturevrópskan og alþjóðlegan markað. Samhliða verður óhjákvæmilegt, að Vestur-Evrópa, og þá einkum Evrópubandalagið, neyðist til að efla samstarf við austrið.

Sameinað Þýzkaland verður í brennidepli þessarar hægri sveiflu. Þaðan og frá Austur-Evrópu mun á næstu árum streyma elfur eindreginnar markaðshyggju.

Jónas Kristjánsson

DV