Markaðslögmál biluðu

Greinar

Hækkað matarverð á Íslandi er eðlileg afleiðing af samruna fyrirtækja. Þau leitast við að milda hreggviðri markaðarins með því að sameinast og komast þar með úr samkeppni í fákeppni og síðan úr fákeppni í fáokun og enda síðan í varanlegri sæluvímu einokunar.

Baugur og Kaupás eru í matvörunni komin í flokk með olíufélögunum, tryggingafélögunum, bönkunum og flugfélögunum. Í öllum þessum greinum hefur samkeppni samkvæmt markaðslögmálum liðið undir lok og ný staða komið upp, sem kennslubækurnar ráða ekki við.

Þjóðir og þjóðfélög hagnast meðan markaðslögmálin virka. Þannig lækkaði matvöruverð lengi á Íslandi, stuðlaði að bættum lífskjörum og minni verðbólgu. Nú hefur tekið við tímabil, þar sem matvöruverð hækkar, stuðlar að verri lífskjörum og meiri verðbólgu.

Þetta er staðfest í nýrri skýrslu Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn. Slíkar skýrslur eru gagnlegar til að lýsa okkur í moldviðri málsaðila, en þær koma ekki í stað sjálfvirkra markaðslögmála, hinnar ósýnilegu handar, sem dásömuð er í markaðshagfræðinni.

Við þurfum fleiri svona skýrslur. Við söknum skýrslna um bensínið, tryggingarnar, flugið og bankana. Við viljum til dæmis, að fróðir menn játi, að tilraunir stjórnvalda til samruna banka og þar með aukinnar fáokunar muni skaða hagsmuni þjóðarinnar og þjóðfélagsins.

Bætt verðlagsvitund neytenda getur hjálpað, sérstaklega á fyrri stigum samrunaferilsins, áður en samkeppni breytist í fákeppni, því að fólk hefur ekki í önnur hús að venda, þegar því stigi er náð. Þess vegna er svigrúm til endurbóta í rauninni afar takmarkað hér á landi.

Aðeins síðustu eftirlegukindur sósíalismans trúa, að laga megi stöðuna með gamalkunnu verðlagseftirliti, útreikningum álagningar og öðrum aðgerðum hins opinbera, sem á sínum tíma hækkuðu verðlag. Umræða um álagningu er ekki leið til lausnar vandamálsins.

Bezt væri, ef unnt reyndist að sigrast á eðlislægu fámenni markaðarins hér á landi með því að opna landið á þann hátt, að ný samkeppni komi að utan, rétt eins og brezka flugfélagið Go fór skyndilega að flytja fólk fram og til baka fyrir fimmtán þúsund krónur á mann.

Tilraunir til að opna glugga trygginga og bensíns hafa ekki tekizt. Íslendingar reyndust nógu miklir þrælar kvalara sinna, tryggingafélaganna, til að hafna frelsi að utan. Irving-feðgar sáu það og hættu við að hefja samkeppni í bensíni, þrátt fyrir stuðning Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin er minna samkeppnissinnuð en borgarstjórnin og hefur reynt að knýja fram sameiningu bankanna, svo að einn banki verði úr ríkisbönkunum. Sú sameining mun breyta núverandi fákeppni bankakerfisins í fáokun og skaða bæði þjóðina og þjóðfélagið.

Ef notkun gjaldmiðla yrði gefin frjáls hér á landi, svo að menn gætu farið að reikna og greiða í evrum eða dollurum eða hvaða annarri mynt, sem þeim þóknast, mundi þjóðfélagið opnast betur, samanburður batna og erlendir bankar fengjust hugsanlega til að opna útibú.

Ef Ísland tæki fullan þátt í Evrópusambandinu, mundi landið opnast enn frekar og ýmis samkeppnisfæri eflast að nýju. Ekki er von á góðu meðan stjórnvöld eru andvíg aðild og halda dauðahaldi í sífellt rýrari krónu, til viðbótar stuðningi þeirra við einokunarferli bankakerfisins.

Við erum í erfiðri stöðu. Markaðslögmál hafa dottið úr sambandi á stórum sviðum. Við þurfum því að endurmeta stöðu okkar og leita nýrra og áður óþekktra lausna.

Jónas Kristjánsson

DV