Markaðslögmálið magnast

Greinar

Hjúkrunarfræðingar beita lögmáli framboðs og eftirspurnar til að ná betri kjörum. Meirihluti þeirra hefur sagt upp störfum og gengur út um mánaðamótin. Þannig stökkva ekki margir út í óvissuna, nema þeir hafi von um annað starf úti í bæ eða úti í heimi.

Lögmál framboðs og eftirspurnar er farið að virka á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Til lítils er fyrir opinbera starfsmenn að krefjast umtalsverðra kjarabóta, nema þeir hafi uppi í erminni, að þjóðfélagið eða umheimurinn vilji nota vinnu þeirra fyrir meira fé.

Sumpart stafar þessi kaupkröfutækni af auknum atvinnutækifærum í þjóðfélaginu almennt og sumpart af aukinni þörf fyrir fólk með menntun og reynslu hjúkrunarfræðinga. Sumpart stafar þetta af aukinni eftirspurn eftir hjúkrunarfræðingum í nágrannalöndunum.

Svo virðist sem notkun lögmálsins hafi þegar haft áhrif á gang viðræðna um lausn. Ljóst er, að kjör hjúkrunarfræðinga munu batna sem svarar nokkrum tugum prósenta. Um helgina var búið að saxa ágreininginn niður í hundrað milljónir króna samtals.

Sjúkrahúsin eru ekki búin að bíta úr nálinni, þótt samkomulag náist við hjúkrunarfræðinga. Uppsagnir hafa þegar borizt frá 150 læknariturum, lyfjatæknum, og matvælafræðingum, vafalaust einnig á þeim forsendum, að þeir sjái atvinnutækifæri í umhverfinu.

Hætt er við, að niðurstaðan leiði til niðurskurðar í þjónustu sjúkrahúsgeirans. Launakostnaður er meira en helmingur sjúkrahúskostnaðarins, sem er síðan hlutfallslega meiri hér á landi en í flestum vestrænum löndum. Því virðist sennilegt, að störfin séu of mörg.

Fyrir svo sem áratug virtust heilbrigðismál vera í góðum farvegi hér á landi. Menn væntu þess að fá góða og síbatnandi sjúkrahúsþjónustu, ef þeir þyrftu á henni að halda. Nú sjá menn fram á biðlista og forgangsröðun, þótt þjóðartekjur hafi aukizt á áratuginum.

Í heilbrigðiskerfinu og einkum sjúkrahúsgeiranum er innbyggð verðbólga, sem felst annað hvort í, að óbreytt þjónusta verður dýrari eða að óbreyttir peningar kaupa minni þjónustu. Eftir uppsögnum að dæma virðist innbyggða verðbólgan ekki stafa af of háu kaupi.

Innbyggða verðbólgan stafar sumpart af nýjum og dýrum lyfjum og nýrri og dýrri tækni, sem menn færa sér í nyt. Sumpart stafar hún af fjölgun stjórnenda á ýmsum stigum. Sjúkrahúsunum hefur láðst að festa hendur á þessari verðbólgu og hafa hemil á henni.

Heilbrigðiskerfið tekur núna um 8% af landsframleiðslunni, meira en í flestum nálægum löndum. Sjúkrahúsin eru þyngst á fóðrunum í þessum geira. Þess vegna er ótrúlegt, að unnt verði að halda uppi óbreyttri þjónustu, þegar núverandi deila hefur verið leyst.

Skoðanakönnun hefur verið beitt til að halda fram, að fólk vilji greiða meira fé til heilbrigðismála. Finna þarf, hvort þjóðin vilji borga meiri skatta í þessu skyni eða taka féð af öðrum póstum. Einnig þarf að finna, hvort dýrar skekkjur leynist í rekstri sjúkrahúsanna.

Þegar ríkisvaldið hefur tekið fjárhagslegum afleiðingum af innreið markaðslögmálsins á sjúkrahúsin, má reikna með, að það reyni að spara á móti með þeim eina hætti, sem sjáanlegur er í stöðunni, með því að minnka þjónustuna, með biðlistum og forgangsröðun.

Ríkið hefur reynt að spara með því að halda lögmáli framboðs og eftirspurnar fyrir utan sjúkrahúsin. Það hefur nú mistekizt, svo að leita verður nýrra leiða.

Jónas Kristjánsson

DV