Markaðurinn einn er réttlátur

Greinar

Deilan um veiðigjald í sjávarútvegi snýst ekki um, að sjávarútvegurinn greiði fyrir þjónustuna, sem hann fær hjá samfélaginu. Ágreiningurinn er annar og djúpstæðari en svo, að hann verði leystur með því að hækka opinber þjónustugjöld greinarinnar eða finna ný.

Lausn málsins felst ekki heldur í sátt milli þeirra, sem hafa, og hinna, sem hafa ekki. Slík sátt milli óréttlætis og réttlætis finnst ekki í spilunum. Gagnrýnendur núverandi kerfis vilja ekki lappa upp á það, heldur láta greiða sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlind.

Baráttan milli núverandi kerfis ókeypis kvóta og ýmissa hugmynda um veiðigjald er barátta um vald til að verja kerfið eða breyta því. Með því að nýtt kerfi hafi breiðara fylgi en núverandi kerfi næst að vísu meiri sátt í þjóðfélaginu, en það er ekki sátt milli deiluaðila.

Skoðanir þeirra, sem vilja breyta kerfinu, eru að falla í færri og öflugri farvegi. Merkasta skrefið á þeirri leið var stofnun hóps áhugamanna um, að ríkið setji allan kvóta á markað. Þannig látum við markaðskerfið segja okkur, hvert sé sanngjarnt verð fyrir aðganginn.

Ef allur kvóti fer á markað, greiða þeir, sem veiða vilja, það sem þeir treysta sér til að borga, en verða ekki að sæta því uppsprengda jaðarverði, sem nú tíðkast. Núverandi markaðsverð á jaðarkvóta segir ekkert um, hvert markaðsverð verði á kvótanum í heild.

Kjarni málsins er, að ríkið eitt hefur framleitt verðgildi kvótans með því að færa út fiskveiðilögsöguna í áföngum og setja strangar reglur um aðgang að fiskveiðum. Ef ríkið hefði ekki gert þetta, væri ördeyða á miðunum og verðgildi aðgangsins nánast ekkert.

Vegna þessara aðgerða ríkisins á það að fara með kvótann fyrir hönd þjóðarinnar og taka við tekjunum af auðlindinni fyrir hönd hennar. Slíkt er hins vegar ekki hlutverk þeirra, sem upphaflega fengu kvóta frítt eða hafa síðan aflað sér hans dýrum dómum.

Með fimm ára aðlögunartíma milli núverandi forréttindakerfis og væntanlegs markaðskerfis geta núverandi handhafar kvótans afskrifað hann. Slík aðlögun er einkar þægileg á þessum tíma aukinnar fiskgengdar, því að þá getur ríkið sett alla viðbótina í markaðskerfið.

Ekkert réttlæti fólst í að afhenda eigendum skipa einkarétt á ókeypis aðgangi að takmarkaðri auðlind á sínum tíma. Þótt þetta óréttlæti hafi síðan gengið kaupum og sölum, er það ekki orðið að neinu réttlæti. Markaðskerfið eitt felur í sér fullt réttlæti.

Athyglisvert er, að þau pólitísku öfl í þjóðfélaginu, sem mestan áhuga segjast hafa á markaðsbúskap í hagkerfinu, skuli í raun hafa mestan áhuga á að viðhalda í sjávarútvegi forréttindum, er stríða gegn markaðslögmálum Chicago-hreyfingar hagfræðinga.

Sátt getur náðst um aðlögunartíma milli núverandi óréttlætis og væntanlegs réttlætis, en engin sátt næst um að lappa upp á núverandi kerfi, sem hefur rækilega komið sér út úr húsi hjá þjóðinni. Sáttin verður ekki milli þeirra, sem hafa, og hinna, sem hafa ekki.

Sátt getur náðst um, að kalt réttlæti markaðskerfisins verði mildað með því að heimila sveitarfélögum og ríkinu að taka þátt í uppboðum til að ýta hluta af kvótanum til byggða, sem eiga í vök að verjast. Slíkt væri eins konar félagslegur markaðsbúskapur.

Kjarni málsins er, að sáttin, sem næst, verður milli hinna ýmsu sjónarmiða um fyrirkomulag veiðigjaldsins en ekki sátt milli þjóðar og forréttindahópa.

Jónas Kristjánsson

DV