Markaðurinn er mettaður

Greinar

Smáhvelin, sem fiskiskip landa í skjóli nætur, nægja til að fullnægja eftirspurn. Innlendur og erlendur markaður fyrir hvalkjöt er þegar mettaður. Engan fjárhagslegan tilgang hefur að leyfa hvalveiðar formlega á nýjan leik, því að engir kaupendur eru að afurðunum.

Þótt þorri þjóðarinnar sé fylgjandi endurreisn íslenzkra hvalveiða, byggist sú skoðun ekki á neinum efnahagslegum rökum. Hvalveiðar eru Íslendingum trúar- og tilfinningaatriði. Menn vilja ekki láta grænfriðunga og bandarískar kerlingar stjórna sér.

Engin markaðsrök eru á færi þingmanna á borð við Guðjón Guðmundsson, sem reyna að slá ódýrar pólitískar keilur á stuðningi við hvalveiðar. Þeir hafa ekki sagt okkur og geta ekki sagt okkur, hverjir eigi að standa undir kostnaðinum með því að kaupa afurðirnar.

Sér til þæginda hafa menn gleymt hrakför síðasta hvalkjötsgámsins um erlendar hafnir, þar sem honum var hvarvetna úthýst og á endanum hrakinn heim til Íslands aftur. Þannig mun fara um frekari tilraunir Íslendinga til að koma hvalafurðum sínum í verð.

Meira að segja Japanir hafa fyrir löngu beygt sig fyrir staðreyndum lífsins og hafa árum saman ekki þorað að kaupa svo mikið sem eitt gramm af hvalaafurðum. Úr því, að Japanir vilja ekki kaupa af okkur, hverjir eiga þá að gera það. Kannski Guðjón Guðmundsson?

Nú liggja Japanir í efnahagskreppu og eru háðir fjárhagslegum björgunaraðgerðum Vesturlanda. Þeir munu því á næstu árum enn síður en áður láta sig dreyma um að fara að kaupa hvalkjöt á nýjan leik. Þeir verða framvegis sem hingað til að halda að sér höndum.

Allur þorri íslenzku þjóðarinnar vill þannig leggja út í kostnað við hvalveiðar, án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Ekki er það gæfuleg rökhyggja, enda minnir hún á Mosfellinga í Innansveitarkróníku Laxness, þegar þeir ályktuðu út og suður um kirkjustað sveitarinnar.

Þar segir Halldór meðal annars, að Íslendingar séu svo frábitnir rökbyggju, að þá setji hljóða, hvenær sem komið sé að kjarna máls. Þetta er nákvæmlega það, sem þeir gera, þegar þeir eru spurðir að því, hver eigi að borga kostnaðinn af fyrirhuguðum hvalveiðum.

Látum vera, þótt lélegustu þingmennirnir telji henta sér að elta vitleysuna. Sorglegri er frammistaða þeirra, sem betur mega sín. Ef viti bornir menn tækju saman höndum um að segja fólki sannleikann um hvalveiðidrauminn, mætti reyna að kveða hann niður.

Hvaða þýðingu hefur það til dæmis fyrir Þorstein Pálsson sjávarútvegsráðherra að flytja mörgum sinnum á hverju ári í átta ár þungorðar ræður um, að það sé forgangsverkefni sitt að hefja hvalveiðar að nýju. Hvers vegna segir hann ekki þjóðinni staðreyndir?

Davíð Oddsson nýtur svo miklar hylli fólks, að menn vilja í öllu lúta vilja hans, jafnvel gefa erlendu fyrirtæki ókeypis sérleyfi til að reka krosstengdan gagnagrunn í heilbrigðismálum. Getur hann ekki notað þungavigt sína til að játa bitran veruleikann fyrir fólki?

Hvað með þessar löngu lestir hagsmunastjóra útflutningsatvinnuveganna, sem hafa gert sér erindi upp í ráðuneyti til að grátbiðja um, að hvalveiðar verði ekki hafnar að nýju, svo að önnur utanríkisviðskipti megi áfram blómstra? Af hverju þora þeir ekki að blása?

Hvalveiðistefna Íslendinga er eins og vitlausraspítali, þar sem gæzlumennirnir þora ekki að segja sjúklingunum annað en það, sem þeir vilja heyra.

Jónas Kristjánsson

DV