Markaðurinn ræður

Greinar

Kominn er tími fyrir okkur að átta okkur á hinni margtuggnu staðreynd, að markaðurinn úti í heimi ræður velgengni okkar og velferð. Við getum ekki ákveðið, hvaða vara eða hvaða meðferð vöru henti útlendingum. Við verðum að laga okkur að aðstæðum.

Í hálfa öld höfum við trúað, að frystur fiskur væri framtíðin. Það hefur lengst af verið rétt. En skyndilega hefur þetta breytzt. Allt í einu er það ísfiskurinn, sem ætlar að taka við hlutverki freðfisksins sem hornsteinn íslenzkrar velmegunar og velsældar.

Við fáum að vísu þær fréttir frá hefðbundnum markaði okkar í Bandaríkjunum, að sumar hinar frystu fiskafurðir okkar séu að hækka í verði og að við framleiðum ekki eins mikið magn og viðskiptavinir okkar vilja kaupa. Þetta eru góðar fréttir út af fyrir sig.

Þær blikna hins vegar gersamlega í samanburði við fréttirnar af ferskfiskmarkaðnum. Gámamaður í Vestmannaeyjum sagðist í viðtali við DV fá fjórfalt verð fyrir kola og tvöfalt verð fyrir þorsk og ýsu, þegar hann væri búinn að draga frá allan aukakostnað.

Að sjálfsögðu er ekki auðvelt að átta sig á, að vinna í frystihúsum sé ekki fiskvinnsla, sem auki verðmæti vörunnar og standi undir hinu lága kaupi, sem þar er greitt. Að sjálfsögðu er erfitt að átta sig á, að frystingin sé í raun ekkert annað en dýr geymsluaðferð.

Orðið fiskvinnsla felur í sér þá bábilju, að verið sé að vinna einhver verðmæti úr aflanum. Í raun og veru er þar verið að verja aflann skemmdum, svo að hægt sé að selja hann neytendum, sem sætta sig við að borða freðfisk sem eins konar draslmat eða sjónvarpsrétti.

Þegar hægt er að selja kola fjórföldu verði, þorsk og ýsu tvöföldu verði, er botninn dottinn úr frystingunni. Vinnan, sem þar er unnin, er skyndilega orðin verðlaus. Lága kaupið þar er ekki aðeins orðið of hátt, heldur ættu menn raunar að borga með sér.

Frystingin gengur enn, af því að verksmiðjurnar í Bandaríkjunum grátbiðja um freðfisk til að verja markaðinn og af því að frystihúsin eru í mörgum tilvikum í sömu eigu og bátarnir. En enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir, að þessi gamla gullnáma hrynji.

Skyndilega hefur komið í ljós, að heimurinn er fullur af húsmæðrum, sem eru eins og hinar íslenzku, er ekki vilja kaupa bragðlausan fisk. Hann er líka fullur af húsmæðrum, sem vilja sjá, hvernig augun líta út og tálknin, svo að þær geti sjálfar metið fiskgæðin.

Í þeim heimi þarf ekki frystihús, sem eru dýr í byggingu, viðhaldi, rekstri og mannakaupi. Í þeim heimi þarf ekki einu sinni Ríkismat sjávarafurða til að eyða opinberu fé í atvinnubótavinnu. Í þeim heimi koma kaupendur, skoða fiskinn og segjast borga hátt verð.

Við erum rétt byrjuð að lykta af þessum markaði, helzt í Bretlandi. Við höfum til viðbótar óljósar hugmyndir um, að til séu þjóðir eins og Frakkar og Japanir, sem telji ferskan fisk með haus og sporði einhvern bezta mat, sem til sé, verðmætari en nautasteik.

Það er ævintýri líkast að koma á fiskmarkaðinn í Rungis við Orly-flugvöll í París að næturlagi, þegar fiskbílarnir koma frá Le Havre og fiskflugvélarnar frá Tahiti. Það er eins og í kössunum sé gull eða platinum. Kaupendurnir lenda nánast í ryskingum.

Ef kaupendur af því tagi ákveða að borga okkur morð fjár fyrir svokallaðan óunninn fisk, það er ísfisk, hljótum við að hlýða kalli tímans, ­ kalli markaðsins.

Jónas Kristjánsson

DV