Marklausar tölur játaðar.

Greinar

Marklaus fjárlög eru ekki nýjung hér á landi. Árum saman hafa fjármálaráðherrar, ríkisstjórnir og stjórnarmeirihlutar á alþingi beitt ýmsum ráðum til að falsa fjárlögin. Tölur hafa verið togaðar út og suður til að ná ímynduðum jöfnuði.

Bezt hefur hinum ómerkilegu stjórnmálamönnum gefizt að taka ráðgerðan kostnað opinberra stofnana út úr fjárlögunum og setja í sérstaka lánsfjáráætlun. Óskhyggjan hefur verið leyst með því að taka sligandi lán í útlöndum.

Ennfremur hafa pólitíkusarnir haft þann sið að skera niður lögbundnar fjárhæðir án þess að breyta lögunum, sem binda tölurnar. Síðan hafa lögbundnu upphæðirnar verið greiddar, þótt allt aðrar og lægri standi í fjárlögum.

Þessi leið hefur oft leitt til vanskila ríkissjóðs í Seðlabankanum. Með seðlaprentun hefur verið framleidd verðbólga, einkaverðbólga íslenzkra stjórnmálamanna. En sú leið gengur ekki, þegar skera á verðbólguna niður í 10%.

Stundum hefur vandinn leyst sig sjálfur. Aukin velta í þjóðfélaginu hefur fært ríkissjóði tekjur til að fylla í götin og greiða vanskilin við Seðlabankann. Enda dreymir menn núna um stórar göngur þorska frá Grænlandi.

Fjárlög yfirstandandi árs eru mörkuð sömu óskhyggjunni og fölsunarhneigðinni og fjárlög fyrri ára. Munurinn er helzt sá, að þau eru óvenju vitlaus, alveg eins og lánsfjáráætlun ársins er sérlega heimskuleg.

Hin nýjungin er, að mikið af þessari vitleysu hefur verið játað að frumkvæði fjármálaráðherra. Hann hefur sennilega séð fyrir, að í þetta sinn yrði ástandið þannig, að ríkisstjórninni dygði ekki að loka augunum og biðjast fyrir.

Hitt er svo fráleitt að láta eins og götin séu einhverjar nýjar stórfréttir. Að verulegu leyti eru þau atriði, sem embættismenn, fjármálaráðherra, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn áttu auðveldlega að geta vitað.

Í fjárlögum var ákveðið að gera ráð fyrir sérstökum 350 milljón króna sparnaði í rekstri sjúkrahúsa, án þess að nokkur hefði hugmynd um, hvernig það mundi gerast. Menn hafa raunar ekki hugmynd um það enn.

Í fjárlögum var ákveðið að vanreikna kostnað við bæjarfógeta og sýslumenn um 150 milljónir. Þar var ákveðið að vanreikna lögskyldar útflutningsbætur landbúnaðarafurða um 120 milljónir og lögskyld námslán um 100 milljónir.

Ekki voru gerðar neinar lagabreytingar til að draga úr þessari lögskyldu til samræmis við fjárlög. Ekki var einu sinni gert ráð fyrir, að ríkissjóður þyrfti að borga vexti af skuldum við Seðlabankann.

Stærstu götin eru í húsnæðismálunum og utan fjárlaga. Lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar, sem liggur fyrir alþingi, er full af ímynduðum tekjuliðum húsnæðislánakerfisins, sem frá upphafi var vitað, að ekki mundu standast.

Ríkisskuldabréfin seljast ekki, atvinnuleysistryggingasjóður hefur öðrum hnöppum að hneppa, lífeyrissjóðirnir eru fjárvana. Á þessum og fleiri sviðum hafa verið settar á blað tölur, sem enga stoð eiga í raunveruleikanum.

Til bóta er, að stjórnmálamenn skuli játa töluverðan hluta þessara synda. Enn betra væri þó, að þeir hættu fölsunum og óskhyggju í fjárlögum og lánsfjáráætlun. Þá gætu þeir vænzt meira trausts hjá langþreyttri þjóð.

Jónas Kristjánsson.

DV