Seðlabankinn fer í haustprédikun sinni að venju mildum höndum um stjórnendur íslenzkra efnahagsmála. Hann segir flest vera innan rammans, þenslu ekki óbærilega, halla ríkisrekstrar ekki óbærilegan og viðskiptahalla gagnvart útlöndum ekki óbærilegan.
Smám saman hafa menn vanizt að taka lítið mark á mati Seðlabankans á stöðu mála. Hann hefur áratugum saman reynzt vera hallur undir ríkisstjórnir hvers tíma. Hann hefur ekki sinnt aðhaldsskyldu sinni í þeim mæli, sem menn ætlast erlendis til af seðlabönkum.
Góðærið sparar ríkisstjórninni að halda vel á spöðunum og hylur veruleikann fyrir Seðlabankanum. Því eru litlar líkur á, að þjóðin komi úr góðærinu betur búin til að fást við verkefni mögru áranna, sem jafnan fylgja góðærum í sveifluþjóðfélagi á borð við okkar.
Skynsamlegt er að fleygja skýrslu Seðlabankans og meta heldur efnahagslegan og peningalegan árangur þjóðfélagsins út frá skilgreinanlegum markmiðum á borð við, hvort við nálgumst eða fjarlægjumst þau markmið, sem nágrannaríki okkar hafa sett sér.
Hvort sem við viljum eða viljum ekki taka þátt í evrópsku myntbandalagi, þá er okkur hollt að setja svipuð peningamarkmið og nágrannarnir. Því miður erum við að fjarlægjast skilyrðin á sama tíma og þjóðir Vestur-Evrópu eru smám saman að nálgast þau.
Fjárlagahalli og ríkisskuldir eru á sæmilegu róli hjá okkur, enda er hér beitt sömu brögðum og víða annars staðar að selja eigur ríkisins upp í afborganir og vexti af skuldum þess. Ríkið étur út eigur sínar og kallar það einkavæðingu til að gefa því hagfræðistimpil.
Verðbólga fer vaxandi hér á landi, úr 1,8% á þessu ári í 2,7% á því næsta. Það stafar af, að ríkið hirðir ekki um að grípa til aðgerða, sem komi í veg fyrir hækkun verðlags í kjölfar mikilla launahækkana. Hún situr með hendur í skauti og kennir öðrum um vandann.
Verðbólga hefur haldizt lág að undanförnu, af því að losað hefur verið um samkeppnishömlur. Frjálsari markaður spillir möguleikum fyrirtækja til að velta launahækkunum út í verðlagið í stað þess að hagræða rekstri sínum þannig, að hann melti hækkanirnar.
Ríkisvaldið á enn ónotuð ýmis tækifæri á þessu sviði. Verðlag ýmissa matvæla er óeðlilega hátt hér á landi vegna verndarstefnu í þágu landbúnaðarins. Lækkandi verð landbúnaðarafurða mundi vega upp á móti þenslu vegna launahækkana af völdum kjarasamninga.
Vextir haldast háir hér á landi á sama tíma og þeir fara lækkandi í nágrannalöndunum. Munurinn er núna talinn nema um og yfir 2%. Þetta er gífurleg skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem stafar eingöngu af því að íslenzkar lánastofnanir eru ferlega illa reknar.
Í stað þess að stokka upp afdankaða stjórnmálagengið í bankastjórnum og bankaráðum hefur ríkisvaldið endurráðið alla gömlu sukkarana. Samt hafa þeir verið staðnir að því að brenna milljörðum í rekstraræfingum gæludýranna í pólitíska samtryggingarkerfinu.
Afdankaða stjórnmálagengið stjórnar líka Seðlabankanum. Þess vegna er bankinn mjúkmáll í haustskýrslu sinni, í stað þess að berja í borðið og segja: Niður með vaxtamun inn- og útlána! Og: Niður með samkeppnishindranir á innlendum markaði!
Þess í stað bullar bankinn í hefðbundnum stíl um að halda verði uppi vöxtum á þenslutíma og um líkur á að launakostnaði fyrirtækja verði velt út í verðlagið.
Jónas Kristjánsson
DV