Erfitt er að sjá, að það komi Hafnarfjarðarbæ neitt við, hvað Orkuveita Reykjavíkur gerir við tekjur sínar af heitavatnssölu í Hafnarfirði, hvort hún greiðir eiganda sínum meiri eða minni arð, hvort hún reisir Perlur fyrir þær eða hvort yfirmennirnir drekka þær bara út.
Samningurinn frá 1973 um heitt vatn í Hafnarfirði frá þáverandi Hitaveitu Reykjavíkur var gerður að frumkvæði Hafnarfjarðar, sem vildi fá ódýrara heitt vatn og spara sér að leggja heitavatnsæðar í bæinn. Samið var um að fá þetta allt á silfurfati frá Reykjavík.
Gáfulegra hefði verið fyrir Hafnarfjörð að kaupa heita vatnið í heildsölu frá Reykjavík og eiga lagnirnar sjálfur, svo að auðveldara væri að slíta viðskiptunum, ef mál þróuðust á þann veg, að samningurinn yrði talinn óhagstæður við nýjar aðstæður aldarfjórðungi síðar.
Skynsamlegt væri fyrir Hafnarfjörð að semja við Orkuveitu Reykjavíkur um að kaupa af henni lagnirnar í Hafnarfirði og öðlast þannig betri stöðu til að bjóða út heitavatnsviðskipti, annaðhvort frá Reykjavík eða Svartsengi eða frá nýjum borholum í Hafnarfirði.
Gagnvart Hafnarfirði kom þáverandi Hitaveita Reykjavíkur fram sem fyrirtæki, er tók að sér ákveðna fjárfestingu og rekstur gegn gjaldi, sem átti að vera sama og hjá gamalgrónum viðskiptamönnum hitaveitunnar í Reykjavík. Þetta var vel boðið hjá hitaveitunni.
Hitaveitan og síðan Orkuveitan hafa staðið við þennan samning í aldarfjórðung. Þessum fyrirtækjum er, eins og öðrum fyrirtækjum í landinu, heimilt að ákveða sjálf, hvernig þau ráðstafa tekjum sínum. Þau eru fjárhagslega ábyrg gagnvart eigendum, ekki viðskiptamönnum.
Ábyrgð gagnvart viðskiptamönnum er af allt öðrum toga. Í samkeppnisástandi ræður markaðurinn verði og gæðum þjónustunnar. Í einokunarástandi er oft samið um að miða við verð og gæði þjónustu á öðrum vettvangi, í þessu tilviki á heimavellinum í Reykjavík.
Þjónustukaupi hefur engan rétt umfram aðra til afskipta af innri málum þjónustusala. Honum kemur við, hvort þjónustan er samkeppnishæf í verði og gæðum, en ekki, hvort sukkað er með tekjurnar af þjónustunni eða þær notaðar til að greiða eigendunum arð.
Á sama hátt á það ekki að koma heilbrigðisráðuneytinu við, hvort heilsustofnanir, sem það gerir þjónustusamning við, nota tekjurnar til að borga læknum eða hjúkrunarfólki meira eða til að borga eigendunum meiri arð. Verð og gæði eiga hins vegar að skipta máli.
Ráðamenn Hafnarfjarðar virðast haldnir sömu efnahagslega skaðlegu áráttunni og ráðamenn heilbrigðisráðuneytisins. Þeir telja sig eiga að hafa afskipti af innviðum fyrirtækja, sem þeir skipta við, fremur en að einbeita sér að samanburði í útkomunni.
Reykjavíkurborg hefur svarað Hafnarfjarðarbæ í sömu mynt með útreikningum um, að hitaveituverð í Hafnarfirði hefði þurft að vera 80% hærra en það er og að tekjurnar frá Hafnarfirði hefðu þurft að vera meira en milljarði króna hærri til að standa undir kostnaði.
Þessir útreikningar Reykjavíkur eru eins marklausir og útreikningar Hafnarfjarðar. Hvor aðili getur endalaust framleitt tölur upp úr eigin poka. Meintur framkvæmda- og rekstrarkostnaður þjónustusala er ekkert innlegg í umræðu um söluverð þjónustunnar.
Það eru ekki innviðir dæmisins, sem skipta máli, heldur útkoman; hvort markaðurinn eða eitthvert markaðs-ígildi ráða verði og gæðum þjónustunnar.
Jónas Kristjánsson
DV