Marklítil stjórnmál

Greinar

Ríkisstjórnir eru ekki myndaðar um stefnuskrár og málefnasamninga, heldur um ráðherrastóla. Pólitískir forustumenn, sem hafa kastað flokksbundinni hugmyndafræði fyrir borð, eiga auðveldara með að ná saman um myndun ríkisstjórnar og eru fljótari að því en hinir.

Ríkisstjórnin er hin nýjasta á þessari leið og því gott dæmi um þetta. Hún skilur eftir sig slóð vanunninna verka. Hún mundi of seint eftir þjóðareign fiskimiða og jöfnun kosningaréttar. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa sífellt að minna hana á loforð úr gömlum þjóðarsættum.

Fyrir fáum áratugum skildu ríkisstjórnir eftir sig spor, góð eða vond eftir aðstæðum. Þá var lagt niður margfalt krónugengi, komið á fót vísi að innflutningsfrelsi, landhelgin stækkuð nokkrum sinnum, komið upp verðtryggingu fjárskuldbindinga og kosningaréttur lagfærður.

Nú er lítið um slík mál og enn minni líkur á, að stjórnmálamenn taki þau alvarlega. Stundum er eins og þeir leggi sig í líma við að reyna að efna ekki loforð sín, þótt auðveld séu. Þeir vildu ekki einu sinni muna eftir þjóðareign fiskimiða fyrr en nokkrum dögum um seinan.

Um þessar mundir geta stjórnmálamenn á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt stuðlað að þátttöku Íslendinga í hálaunuðum störfum á sviði upplýsingahraðbrautarinnar. En þeir nenna bara ekki að margfalda bandvídd gangaflutninga á nýja símakaplinum til útlanda.

Orð standa ekki lengur. Í gamla daga hefði þótt stórmál, að forseti Alþýðusambandsins kvartaði yfir, að ríkisstjórnir stæðu ekki við sinn hlut í þjóðarsættum. Núna yppta menn bara öxlum út af slíkum ummælum, halda áfram að rjúfa gamlar þjóðarsættir og semja nýjar.

Kjósendur hafa líka breytzt. Þeir ganga ekki lengur berserksgang til að knýja stjórnmálaflokkana til að jafna kosningaréttinn. Þeir fylgjast bara með máttlitlum undanbrögðum foringjanna eins og áhorfendur í leikhúsi. Kjósendur kasta ekki tómötum í leikhúsi stjórnmálanna.

Raunar er þjóðin að missa áhuga á stjórnmálum. Nærri helmingur spurðra getur ekki ákveðið sig í skoðanakönnunum. Rúmlega helmingur spurðra er sáttur við árlegan tugmilljarðabruna verðmæta í landbúnaði, þótt hann geri Ísland að láglaunasvæði Vesturlanda.

Viðhorf ungliða í stjórnmálaflokkunum er svipað. Sjaldgæft er orðið, að í þá gangi fólk með slíkan áhuga á málefnum, að það standi uppi í hárinu á flokksforingjum, svo sem tíðkaðist fyrir fáum áratugum. Svo virðist sem nú séu flestir ungliðar lítið annað en framagosar.

Þar á ofan er fólk aftur farið að sækja atvinnu sína til stjórnmálaflokka og að þessu sinni mest til Alþýðuflokksins, svo sem frægt hefur orðið á kjörtímabilinu. Stólar og stöður liggja á lausu fyrir getusnauða flokkssauði, meðan atvinnuleysi ríkir úti í þjóðfélaginu.

Framaheftir ungliðar eru farnir að flakka milli flokka eftir því sem kaupin gerast á eyrinni. Einn daginn er upprennandi stjórnmálamaður kominn í þriðja sæti á einum framboðslista í Reykjavík og nokkrum vikum síðar er hann kominn í annað sæti á öðrum lista.

Stjórnmálaflokkarnir eru smám saman að færast í stílblöndu klúbbs og íþróttafélags. Fólk sækir félagslíf og spennu í flokkana, en ekki málefni. Það fær tækifæri til að hrópa og kalla með strákunum sínum. Og leikmenn flækjast milli liða. Pólitíkin verður að kappleikjum.

Þetta ferli heldur áfram eftir kosningar. Fyrstir til að mynda stjórn verða þeir, sem ekki bera neinar málefnabyrðar, heldur blína sem fastast á ráðherrastólana.

Jónas Kristjánsson

DV