Markviss leið til fátæktar

Greinar

Kreppuskýin, sem hrannast upp á Íslandi, ná ekki langt út fyrir landsteinana. Í nágrenni okkar, beggja vegna Atlantshafs, er bjart yfirlitum um þessar mundir. Framleiðsla og auður fer ört vaxandi í flestum löndum Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, ­ nema á Íslandi.

Einkum eru bjartar horfurnar á auknum alþjóðaviðskiptum. Er það í líkingu við þróunina á allra síðustu árum. Í hittifyrra jókst magn alþjóðaviðskipta um 5,5% og í fyrra um 8,5%. Efnahagsspár fjölþjóðastofnana gera ráð fyrir svipuðum tölum á hinu nýbyrjaða ári.

Þessar tölur og aðrar slíkar eru alvarleg áminning þeim, sem telja sér stjórnmálahag í að hvetja til aukinna hafta til að vernda innlenda framleiðslu fyrir útlendri. Menn sjá, að milliríkjaviðskiptum fylgir lækkað verð á vörum og þjónustu og þar af leiðandi bætt lífskjör.

Að vísu er verndarstefna vinsæl leið til stjórnmálaáhrifa, bæði vestan og austan hafs. Stjórnmálamenn eru fljótir að æsa sig upp, ef þeir telja, að útlend vara sé boðin undir verði innlendrar. Þeir hugsa fyrr um velferð innlendra framleiðenda en innlendra neytenda.

En á líðandi stund er ekki búizt við, að verndarárátta spilli alþjóðaviðskiptum á næstu misserum. Áfram mun verða vorilmur í efnahagslofti Vesturlanda að sinni, unz til valda komast stjórnmálamenn, sem hafa svipuð vaðmálssjónarmið afturhalds og valdamenn Íslands hafa.

Kreppuskýin yfir Íslandi eiga sér enga skýringu úti í heimi. Vandræði okkar eru ekki endurómun neinnar heimskreppu, af því að flest er í lukkunnar velstandi utan landsteinanna. Við búum nefnilega við heimatilbúna kreppu, sem er algerlega á eigin ábyrgð okkar.

Okkar kreppa er ekki smíðuð af sjávarútvegsráðherra. Hinar vísindalegu uppgötvanir hans í dýrafræði hvala eru ekki enn farnar að hafa umtalsverð áhrif á utanríkisviðskipti okkar. Sú kreppa er að mestu leyti ókomin og mun bætast ofan á þá kreppu, sem fyrir er.

Íslandskreppan stafar ekki heldur af hruni fiskveiðistefnu sjávarútvegsráðherrans. Stefnan mun hins vegar endurspeglast í minnkuðum afla, þegar líður á þetta ár og þá bætast ofan á kreppuna, sem fyrir er. En þetta hefur ekki enn komið niður á útflutningstekjum okkar.

Ekki er heldur hægt að segja, að hin séríslenzka kreppa stafi af tilraunum ríkisstjórnarinnar til að frysta atvinnulíf og byggð í landinu í því ástandi, sem það var við valdatöku hennar í haust. Áhrif atvinnutryggingar- og hlutafjársjóða eru ekki enn komin fram að neinu ráði.

Þegar afleiðingar af kvótastefnu og hvalveiðum, bjargráðasjóðum af ýmsu tagi og almennri skipulags- og forsjárhyggju ríkisstjórnarinnar lenda af fullum krafti á þjóðinni, verður hér miklu meiri kreppa en sú, sem nú er farin að valda atvinnuleysi víða um land.

Kreppa líðandi stundar stafar að umtalsverðu leyti af verkum ríkisstjórnarinnar, sem var næst á undan núverandi vaðmálsstjórn. Það er fastgengisstefna fyrri stjórnar, er varð helzti örlagavaldur þjóðarinnar í efna hagsmálum, bæði á síðasta ári og í byrjun þessa árs.

Handafl stjórnvalda framleiðir jafnan meiri vandamál en það leysir. Þeim mun meira, sem ríkisstjórn tekur á verkaskrá sína, þeim mun meiri kreppu framleiðir hún. Handafl fastgengisstefnu fyrri stjórnar nægði til að hranna upp nýju skýjunum á efnahagshimninum.

Þegar áhrif núverandi stjórnar fara að koma í ljós, verða skörp skil á leiðum okkar og nágrannaþjóðanna. Þær munu áfram efla auð sinn, en við fátækt okkar.

Jónas Kristjánsson

DV