Julíus Nyerere, forseti Tanzaníu, var ekki dæmigerður leiðtogi í þriðja heiminum. Hann safnaði ekki auði handa sjálfum sér. Hann lét með góðu af völdum í síðasta mánuði eftir 30 ára einræði. Að vísu valdi hann eftirmanninn sjálfur.
Nyerere hefur notið meiri virðingar út um heim en flestir aðrir einræðisherrar. Þetta hefur meðal annars leitt til, að land hans hefur fengið mun meiri þróunaraðstoð en önnur lönd þriðja heimsins. Hún nemur hærri fjárhæðum en öll útflutningsverðmæti landsins.
Norðurlönd hafa verið mikilvirkust í aðstoðinni við Nyerere og Tanzaníu. Landið hefur komizt í landafræðikennslubækur Norðurlanda, þar á meðal Íslands. Er þar fjallað um Tanzaníu eins og nokkurs konar fyrirmyndarríki. Stjórnarstefna Nyereres hefur líka geðjast þessum skipulagssinnuðu ríkisdýrkunarþjóðum.
Nyerere er sósíalisti og hefur trúað á slagorð á borð við markvissar aðgerðir, markvissa atvinnustefnu, markvissa nýsköpun. Þessi stefna hans hefur gert Tanzaníu að gjaldþrota ómaga á framfæri Norðurlanda.
Þegar Bretar gáfu Kenya og Tanzaníu frelsi fyrir þremur áratugum, var Kenya mun hrjóstrugra og fátækara land en Tanzanía eða Tanganyika eins og landið hét þá. Nú er Tanzanía hins vegar fátækara landið og er raunar fátækara en það var fyrir 30 árum.
Það er hin markvissa nýsköpun Nyereres, sem hefur brotið niður efnahag Tanzaníu. Að sovézkri fyrirmynd kom hann upp samyrkjubúum í landbúnaði. Hann kom upp miðstýrðu, opinberu verðlagskerfi. Þetta eru bara tvö dæmi af mörgum.
Nyerere vissi ekki frekar en margir enn þann dag í dag, að markið, sem stefnt er að, reynist jafnan að meira eða minna leyti rangt. Enginn forseti eða hagfræðingur getur spáð fram í tímann og séð, hvaða svokallaða markvissa stefna er bezt. Aðstæður breytast stöðugt og gera það fáránlegt, sem áður virtist sjálfsagt.
Í Bandaríkjunum hefur komið í ljós, að tveir þriðju hlutar nýrra atvinnutækifæra myndast í greinum, sem ekki voru til fyrir fimm árum. Sá vitringur, sem hefði fyrir fimm árum skipulagt markvissa atvinnustefnu þar í landi, hefði reynzt vera falsspámaður. Hann hefði spillt fyrir eðlilegri og sjálfvirkri þróun, því að forgangsverkefnin eða gæluverkefnin hefðu verið önnur en þau, sem síðan urðu þjóðinni til framdráttar.
Fiskeldi þróaðist ekki á Íslandi fyrir stuðning ríkisins, heldur þrátt fyrir andstöðu embættismanna. Það er fyrst nú, þegar greinin er viðurkennd, að farið er að lána til hennar. Tölvuiðnaður hefur skotið rótum án markvissra aðgerða hins opinbera. Hann hefur fyrst og fremst verið látinn í friði. Núna fyrst á að fara að byrja að lána til hans smávegis af peningum, þegar hann hefur öðlazt viðurkenningu.
Nyerere var góðviljaður forseti. En hann gerði þau mistök að halda, að hann og hans menn gætu skipulagt framtíðina. Við skulum læra af mistökum hans og gjalda varhug við kenningum stjórnmála- og embættismanna um að koma á fót markvissum aðgerðum, markvissri atvinnustefnu, markvissri nýsköpun.
Það, sem nú sýnist tilvalið að beztu manna yfirsýn, kann ekki aðeins að reynast, heldur mun sennilega reynast úrelt að fimm árum liðnum.
Jónas Kristjánsson
DV