Markvisst aðgerðaleysi

Greinar

Matvælasendingar Sameinuðu þjóðanna til Sarajevo í Bosníu hafa að megintilgangi að sefa samvizku umheimsins og að draga úr hinni hörðu gagnrýni, sem samtökin hafa sætt fyrir aðgerðaleysi sitt í mesta stríðsglæpa- og mannréttindabroti síðustu áratuga.

Þetta kom vel í ljós, þegar yfirvöld í Sarajevo neituðu að taka við mat, á meðan Sameinuðu þjóðirnar hefðu ekki manndóm til að koma mat til innilokaðra svæða í Bosníu. Þessi aðgerð auglýsti vel eymd Sameinuðu þjóðanna og blekkingaleikinn í hjálparstarfi þeirra.

Ráðamenn Vesturlanda vilja ekki hafa afskipti af Bosníu, en komast ekki upp með það vegna almenningsálits. Þess vegna beita þeir fyrir sig fjölþjóðastofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar til að þæfa málin, svo að sífellt sé hægt að fresta aðgerðum gegn Serbíu.

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki einu samtökin, sem hafa beðið varanlegan hnekki í Bosníu. Á sama báti er Evrópusamfélagið, sem með Sameinuðu þjóðunum ber ábyrgð á, að þeir Cyrus Vance og David Owen lögðu fram áætlun um að verðlauna Serba fyrir afrekin.

Í friðartillögu Vance og Owens eru stríðsglæpir Serba látnir kyrrir liggja. Í tillögu þeirra er þjóðahreinsunarstefna þeirra formlega staðfest. Þar á ofan er tillagan gersamlga óframkvæmanleg, af því að hún margfaldar vegalengd landamæranna milli Serba og umheimsins.

Einnig beið Atlantshafsbandalagið hnekki í Bosníu, enda verður það lengi að jafna sig, eftir að heimskommúnisminn gufaði upp af sjálfsdáðum. Herstjóri bandalagsins í Evrópu, John Shalikashvili, sagði í Búdapest fyrir helgina, að engra aðgerða þess væri að vænta.

Hershöfðinginn endurómar stefnu fyrrverandi og núverandi Bandaríkjaforseta, að ekki megi hefja styrjaldaraðgerðir gegn Serbum. Á sama tíma heldur allt þetta lið virðingarmanna þeim upptekna hætti að flytja reglubundnar áminningar og hótanir í garð Serba.

Slobodan Milosevic, Zeljki Raznjatovic, Radovan Karadzik og aðrir verstu stríðsglæpamenn Serba hafa fyrir löngu áttað sig á, að ekkert er að marka áminningar og hótanir af hálfu undirmálsmanna á borð við George Bush, Bill Clinton, John Mayor og Helmut Kohl.

Því lengur, sem misheppnuðum leiðtogum Vesturlanda tekst að fresta aðgerðum gegn Serbíu, þeim mun erfiðari verða þær. Alvarlegast er, að helzti stuðningsmaður Vesturlanda í Rússlandi, Boris Jeltsín, er að glutra völdum í hendur afturhaldssamra Serbíusinna.

Stjórn Jeltsíns er komin í vörn heima fyrir og er því farin að beita sér gegn frekari aðgerðum Vesturlanda gegn Serbíu. Það er því orðið erfiðara en áður að ráðast úr lofti á hernaðarlega mikilvæga staði í Serbíu og mynda loftbrú til einangraðra svæða í Bosníu.

Með hverri vikunni, sem líður, aukast líkur á, að þjóðahreinsun Serba verði fordæmi sumum þeirra ótalmörgu þjóða, sem vilja rýmka um sig á kostnað nágrannaþjóðanna. Slíkar þjóðir eru einkum margar í hundrað-þjóða-álfunni, sem áður nefndist Sovétríkin.

Flestum eða öllum valdamönnum Vesturlanda er í rauninni ljóst, að ekkert annað en gagnstríð getur stöðvað Serba, en vilja hins vegar ekki heyja slíkt stríð. Friðarráðstefnur og matvælasendingar eru notaðar til að draga fjöður yfir þessa staðreynd og tefja tímann.

Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusamfélagið og Atlantshafsbandalagið birtast okkur í raunsærra ljósi en áður, eftir markvisst og langvinnt aðgerðaleysi í Bosníu.

Jónas Kristjánsson

DV