Maru

Veitingar

****
Upprisa Japans

Salta sojabaunasúpan Miso var heit, hæfilega sterk og ljómandi góð, einnig magafyllin af steiktum núðlum með kókos og engifer, svo og ferskt og fjölbreytt blaðsalat með mangó og papaja.

Allt fæst þetta á hádegisverðarseðli Maru og sushi að auki fyrir samtals 1240 eða 1590 krónur. Fjórir bitar af sushi og sojasúpa á 1240 krónur eru raunar eitt bezta hlutfall verðs og gæða á íslenzkum veitingastað.

Allir, sem fyrirtækjakorti geta valdið, hanga í hádeginu í biðröðum á Vox til að fá forunnið maki og fleira af hlaðborði fyrir 2100 krónur, þegar hér má sitja um kyrrt til borðs og fá ferskvöru og fulla þjónustu að auki á aðeins 1240 krónur.

Samt finnst mér Maru ekki eins góður Japansstaður og Sticks ‘n Sushi, sem var áður í gamla Ísafoldarhúsinu. Sá fyrri hafði fjölbreyttara og framandlegra úrval af sushi og jakitori. En ferskleikinn er núna nokkurn veginn hinn sami og hann var fyrrum.

Maki er þangvafin hrísgrjónarúlla, sushi er hrár fiskur á hrísgrjónabollu, sashimi er hrár fiskur, terijaki er sojaleginn matur og jakitori er grillmatur. Á Maru er sushi raunar kallað nigiri.

Innviðir Maru er lítið breyttir. Settar hafa verið upp trégrindur á gólf og veggi og búinn til japanskur setukrókur með sessum í einu horninu. Ljós loftljós eru komin til sögunnar. Að öðru leyti er japanska naumhyggjan hin sama og áður, með stærðfræðilega nákvæmri borðaröðun.

Japönsk matreiðsla er hátindur austrænnar matreiðslu, svipað og frönsk matreiðsla er hátindur hinnar vestrænu. Það er því bezta mál, að einhver fáist til að halda uppi merki japanskrar í þessu notalega húsi, þótt fyrri tilraun hafi því miður ekki skilað fjárhagslegum árangri.

Á kvöldin er hægt að fá 5 sushi og 5 maki í einum pakka á 2.400 krónur. Auk þess má sérpanta einstaka rétti og meira að segja fá nokkra taílenska karrírétti, sem virðast vera úti að aka á japönskum veitingastað.

Bragðbezt á kvöldseðlinum reyndust vera þangvafin bleikjuhrogn á 350 krónur rúllan og þangvafin loðnuhrogn á 290 krónur rúllan. Ýmsar tegundir af góðu borðvíni eru fáanlegar í glasatali, en bezt er að halla sér að grænu te, sem er þjóðardrykkur Japana.

(Maru, Austurstræti 12, 511 4440, www.maru.is, maru@maru.is)

Jónas Kristjánsson

DV