Mastrið bilaði ekki

Greinar

“Ég tel, að ástandið hjá sjómönnum hafi skánað mikið við, að langbylgjumastrið á Vatnsenda fauk niður. Eftir það voru allir veðurfréttatímar sendir út á stuttbylgju í gegnum Gufunes og við sjómenn erum allt í einu farnir að heyra þær.”

Þetta sagði einn sjómaðurinn í viðtali við DV eftir ofsaveðrið mikla í upphafi þessa mánaðar. Sjónarmið hans hafa síðan endurspeglazt víða í fréttum og greinum, þar sem tæknimenn og sjómenn hafa fjallað um, hvort við þurfum nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð.

Víðast hvar hefur verið fjallað um þetta á vitrænan hátt, nema í sölum Alþingis. Þar hóf Árni Johnsen umræðu utan dagskrár um, hvílík vá væri fyrir dyrum sjómanna. Þingmenn kepptust síðan hver um annan þveran um að lofa milljarði í langbylgjumastur.

Daginn eftir umræðuna utan dagskrár gaf Svavar Gestsson menntamálaráðherra út svofellda yfirlýsingu: “Ný langbylgjustöð verður byggð og það verður hafizt handa við undirbúning strax.” Þessi viðbrögð Alþingis og ríkisstjórnar sýna óþarfa æðibunugang á þeim bæjum.

Rétt er að hafa í huga, að mastrið mikla á Vatnsendahæð féll ekki í óveðrinu af því að það væri orðið 60 ára gamalt og fúið. Það féll ekki heldur af því, að eigandi þess hefur ekki hirt um að halda því við í 20 ár. Það féll, af því að festing á stagi bilaði niðri við jörð.

Ef menn hirða um slíkt, er mjög einfalt mál að halda við festingum á stögum, ef þeir hafa einhverjar raunverulegar áhyggjur af mannvirkjum sínum. Það kostar sáralitla peninga, meðan menn eru að gamna sér við skýjaborgir um nýtt mastur fyrir einn milljarð.

Einnig er gott að hafa í huga, að Ríkisútvarpið gat reist nýtt mastur, ef það hefði í rauninni talið slíkt vera þvílíkt forgangsmál, sem nú er gefið í skyn. Á liðnum áratugum hefur stofnunin fjárfest gífurlega í öðru, þar á meðal í kastala sínum við Efstaleiti í Reykjavík.

Langbylgjan er orðin svo úrelt, að framleiðsla senditækja er um það bil að leggjast niður. Í Bandaríkjunum hafa miðbylgja og örbylgja tekið við. Í öllum þorra útvarpstækja, sem hér á landi hafa verið seld um langan aldur, hefur alls ekki verið nein langbylgjumóttaka.

Stuttbylgjusendingarnar, sem tóku við, þegar stagfestingin brotnaði á Vatnsendahæð, eru mörgum sinnum ódýrari lausn. Einnig kemur til greina, að efla búnaðinn á strandstöðvum Landssímans til að koma þar fyrir veðurspám og tilkynningum til sjómanna.

Loks fer að koma að því, að gervihnattastöðvar leysi landstöðvar af hólmi. Það er mjög freistandi leið, því að hún er óháð truflunum, sem verða á raforkudreifingu hér á landi, ef eitthvað er að veðri, enda virðist dreifikerfið vera miðað við suðlægari slóðir.

Við eigum nóga kosti í þessu máli, aðra en að reisa nýtt langbylgjumastur fyrir milljarð króna. Vandinn er miklu fremur fólginn í að velja milli nokkurra annarra leiða, sem hver fyrir sig hefur kosti umfram hinar. Þær geta jafnvel farið saman að töluverðu eða öllu leyti.

Athyglisvert er, hversu auðvelt er að æsa þingmenn og ráðherra til örlætis á peninga, sem þeir eiga ekki. Á Alþingi og í ríkisstjórn ríkir þvílík óreiðustefna í meðferð fjármuna, að menn voru tilbúnir til að kasta milljarði í skyndilega geðsveiflu 4. og 5. febrúar.

Nýtt landbylgjumastur er óþarft. Það vissu þeir, sem létu hjá líða að styrkja stagfestingar á Vatnsendahæð, svo að forngripurinn mætti standa í önnur 60 ár.

Jónas Kristjánsson

DV