Matartími í skítabælinu

Greinar

“Þetta er skítabæli” var eina fyrirsögnin á forsíðu síðasta ferðablaðs Sunday Times. Ef DV væri svona glannalegt í texta um Bláa lónið, mundu tugir manna hringja í blaðið til að mótmæla. Þótt DV hafi verið að ólátast í rúmt ár, eigum við enn nokkuð í land til að ná einu virðulegasta blaði Breta.

Auðvitað var fyrir löngu orðið tímabært, að einhver lýsti þeirri skoðun, að Bláa lónið sé skítabæli, of dýrt, með táfýlu í búningsklefum og óhreinu vatni, sem sumir noti fyrir salerni. En það var ekki DV, sem reið á vaðið, heldur Sunday Times, sem er með virðulegri fréttablöðum í heimi.

Hvarvetna og daglega verðum við á DV vör við undarlegt fréttamat fólks. Formanni Fylkis fannst óráð, að blaðið skrifaði um, að lukkudýr félagsins hafi verið illa drukkið til vandræða á fótboltaleik. Fjölmennum hópum finnst ekki vel til fallið, að velt sé við steinum og kíkt undir þá.

Dómsmálaráðuneytið er dæmigert. Ráðherra finnst bjánalegt, að DV fjalli um, hvernig ráðuneytið beitir geðþótta til að hindra konu í að ættleiða barn. Hann segir, að, að ástæða neitunarinnar hafi ekki verið ofþyngd hennar, heldur önnur, sem þó má ekki upplýsa hver er, af því að það sé einkamál.

Landinu í heild er stjórnað af kerfiskörlum á borð við dómsmálaráðherra, sem helzt vildu búa í Sovétríkjunum, þar sem menn voru dæmdir fyrir brot á leynilegum lögum, af því að kerfiskarlar taka geðþótta fram yfir önnur stjórntæki. Barnaverndarnefndir eru þekktar fyrir þetta hugarfar.

Fyrir mörgum árum reið ég oft framhjá garði í Elliðaárdal, þar sem reffilegur hani rak hunda á brott með látum. Þegar ég vildi láta skrifa sæta sögu um hanann, var niðurstaðan sú, að Diddi fiðla væri ekki til, hann byggi ekki í dalnum, hann ætti engan hana og að haninn hans galaði ekki á hunda!

Hér á landi er ekkert mál að afneita staðreyndum, til dæmis viðtölum, sem eru til á segulböndum. Íslendingar ljúga þindarlaust og yppta öxlum, þegar upp kemst. KB-banki kemst upp með að vera með á vefnum reiknivél fyrir húsnæðislán, þar sem ekki er hægt að gera ráð fyrir neinni verðbólgu.

Það er brenglað þjóðfélag, þar sem barnaverndarnefnd rífur 60 mínútna gamalt barn af móður þess og kvartar síðan um, að blaðamaður DV trufli nefndarformanninn í matartímanum.

DV