Matstaður fyrir frægðarfólk

Veitingar

Ég man eftir svona veitingahúsi í New York. Það hét Elaine og var fyrir velgengnislið skemmtibransans. Þar át Peter Sellers á hverju kvöldi og naut þess að vera fyrirlitinn af fúlu kerlingunni, sem átti staðinn. Við hin borðin sátu túristapör úr miðríkjum Bandaríkjanna og góndu stórum augum á Sellers og frægðarfólkið.

Nú á að stofna svona stað í Lækjargötu 6. Þar á fræga fólkið að eiga sér athvarf, auðvitað fyrir morð fjár, og síðan á að skammta inn eitthvað af vel stæðum almenningi til að góna á fína fólkið. Þetta mun áreiðanlega verða vel heppnaður staður, því að hann þjónar þekktri sýniþörf frægðarfólks.

Elaine sogaði til sín kúnna, af því að maturinn var vondur, alveg óvenjulega vondur. Þar með taldi fína fólkið öruggt, að enginn kæmi á staðinn til að borða matinn, heldur til að góna á frægðarfólk. Það er nefnilega lykilatriði í rekstri veitinga fyrir frægðarfólk, að staðurinn skyggi ekki sjálfur á fína fólkið. Góðir kokkar eru því umsvifalaust reknir.

Elaine var fullkomin útgáfa af þessu. Peter Sellers kom daglega og þoldi vonda matinn í sælli vissu um, að hálfur salurinn góndi. Þetta svalaði sýniþörfinni eins og klúbburinn, þar sem hann lék jazz eitt kvöld í viku. Mér dettur í hug einn Íslendingur, sem þarf svona stað, en þori ekki nefna hann til að æsa ekki upp hneykslaða Talstöð.

Svona veitingahús voru til víðar í Bandaríkjunum, en Elaine er það eina, sem ég hef heimsótt. Það var versta veitingahús af þúsund, sem ég hef heimsótt. Ég skil ekki, hvers vegna því var lokað fyrir nokkrum árum. Kannski varð Elaine Kaufman alveg gaga af því að leggja frægðarfólk í einelti.

DV