Matstofa NLFÍ

Veitingar

Austræn áhrif

Matstofur náttúrulækningamanna á Vesturlöndum hafa batnað mikið í kjölfar áhrifa frá austrænni matreiðslu, einkum indverskri. Á þeim slóðum hefur fólk öldum saman notað grænmeti og ávexti sem grundvallarfæðu og lítt eða alls ekki notazt við fæðu úr dýraríkinu. Það á því á þessu sviði eldri og traustari matreiðsluhefðir en Vesturlandabúar.

Slík áhrif eru að koma í ljós í Matstofu Náttúrulækningafélags Íslands á horni Laugavegs og Klapparstígs. Á kvöldin er kominn þar í notkun matseðill með ýmsum réttum, flestum austrænum. Þar má sjá kínverska Wun Tun súpu og Tofu og japanska Miso súpu. Raunar má segja, að á kvöldin sé Matstofa NLFÍ orðin austrænni en hinn hálf-vestræni Dreki handan götunnar.

Til skamms tíma var nytjastefna alls ráðandi í matstofum náttúrulækningamanna. Þá var eingöngu hugsað um næringargildi og annað slíkt, en lítil áherzla lögð á lystugt útlit matarins og bragðgæði hans eða þá á aðlaðandi umhverfi máltíðarinnar. Hvort tveggja hefur breytzt í Matstofu NLFÍ, sem þar með hefur sótt inn á hinn almenna veitingahúsamarkað.

Raunar er Matstofa NLFÍ enn sjálfsafgreiðslustaður og er þannig strangt tekið ekki innan ramma þessa greinaflokks um íslenzk veitingahús. En starfsfólk er farið að freistast til að bera aðalrétti á borð fyrir gesti. Mikilvægara er þó, að matstofan er ekki meira af sama, eins og flest nýstofnuð veitingahús eru, heldur öðruvísi staður, sem víkkar svigrúm íslenzkrar matargerðarlistar. Þess vegna er matstofan tekin með hér.

Eins og skurðstofa

Salurinn á annarri hæð hússins er kaldur og nánast skurðstofulegur, þótt innbúið sé nýtt og betra. Allt er haft í ljósu. Hvítt er loftið, veggirnir neðanverðir og viðamiklir gluggakarmarnir. Ljósbláir eru veggirnir ofanverðir. Og ljós furulitur er í gólfi og húsbúnaði.

Furuparkettið á gólfinu glansar af hreinlæti eins og raunar salurinn í heild. Við hringlaga borð úr massífri furu eru 35 nettir stólar úr sveigðum krossviði. Í gluggum eru pottablóm, en að öðru leyti er horfið fyrra blómaskrúð. Í heild er andrúmsloftið fremur heilsuverndarlegt en notalegt..

Eina frávikið frá lystugu útliti matarins í Matstofu NLFÍ reyndist vera heilhveiti-snittubrauðið, sem var bæði gamalt að sjá og á bragðið. Vonandi er þar ekki um að ræða sömu sérvizkuna og á sjúkrahúsunum, þar sem brauð er af hollustuátæðum geymt í sólarhring fyrir notkun. Ég hef alltaf talið hina raunverulegu ástæðu vera óbeit sjúkrahúsa á sjúklingum, hina sömu óbeit og lýsir sér í skjannahvítum sjúkrastofum.

Sveppasúpa Matstofu NLFÍ var ekki merkilegur matur, enda var hveitibragðið of áberandi, eins og í sumum öðrum réttum staðarins. Ef ekki er tími til að losna við hveitibragðið, er betra að hafa súpurnar tærar.

Wanton-súpa var sterk, dökkbrún súpa með hveitinúðlupokum, ágætis súpa, gott dæmi um, að matur náttúrulækningamanna getur verið eins lystugur og hver annar vel heppnaður matur.

Japanska Miso-súpan var hins vegar dauf og lítt áhugaverð súpa með baunafroðuhlaupi og ýmsu grænmeti. Hana hefði mátt krydda meira og betur.

Pottréttir í karrísósu

Bezti aðalréttur prófunarinnar var bananakarrí-pottréttur. Hann var borinn fram með karríhrísgrjónum, bakaðri kartöflu, röspuðum gulrótum, tómötum og alfa-alfa spírum á sérstökum hliðardiski. Á hinum diskinum var mikið af bananasneiðum með papriku og annars konar grænmeti í miklu magni af mildri karrísósu, sem ekki hafði alveg losnað við hveitibragðið. En þetta var eigi að síður hinn lystugasti matur.

Sveppa- og bauna-karrípottréttinum fylgdi sams konar meðlæti á hliðardiski. Sveppirnir virtust því miður vera úr dós, en baunirnar voru ágætar. Karrísósan var nokkru sterkari en hin, sem var í bananaréttinum.

Kínverska eggjarúllan var þunn og stökk og góð, með baunakássu innan í. Hliðarréttirnir voru hinir sömu, en ekki á sérstökum diski. Með rúllunni var mild og sæt tómatsósa í sérstakri skál.

Kínverskur Tofu-réttur fólst í soyabaunafroðuhlaupi á eins konar tortilla-brauðbotni með áðurnefndum grænmetis-hliðarréttum. Þetta var skemmtilegur réttur, gersamlega ólíkur því, sem fæst í öðrum veitingahúsum.

Ljómandi eftirréttir

Eftirréttir Matstofu NLFÍ ljómuðu í prófuninni, bæði bakaðir bananar með döðlum, möndlum og rjóma, svo og kiwi með eplum, vínberjum og kókosmjöli. Svo óvenjulegir eða betri eftirréttir fást ekki annars staðar í bænum.

Í hádeginu er gamla formið áfram við lýði. Þá er á boðstólum réttur dagsins á 160 krónur eða súpa á 140 krónur, hvort tveggja með aðgangi að salat- og brauðbar.

Á kvöldin er miðjuverð á súpum 90 krónur, aðalréttum 150 krónur og eftirréttum 85 krónur. Jurtate kostar 20 krónur og íslenzkt grasate 30 krónur. Súpa og aðalréttur kosta að meðatali 240 krónur. Matstofa NLFÍ er því í ódýrata flokki íslenzkra veitingahúsa, en er þó á kvöldin heldur dýrari en Laugaás, Potturinn og pannan, Veitingahöllin og Drekinn.

Matstofan er komin á rétta braut. Hún er að vísu ekki orðin að matargerðarmusteri eins og sumar slíkar erlendis, sem hafa sýnt fram á, að náttúrulækningafæða getur í bragðgæðum keppt við hvaða aðra vel matreidda fæðu sem er. En hún hefur komizt áleiðis á þessu ári.

En mér fannst þetta vera hvítt hveiti, en ekki heilhveiti. Er það samkvæmt reglunum?

Jónas Kristjánsson

DV