Mávurinn

Veitingar

Þótt Jónatan Livingstone Mávur sé dálítið poppaður staður og ruglingslegur, er einn þáttur hans þó staðfastur. Það er maturinn, sem alltaf hefur verið góður, þegar ég hef komið þar, oftast mjög góður og stundum frábær. Mávurinn er satt að segja einn af beztu og traustustu matsölustöðum landsins, með sjálfa matreiðsluna í fyrirrúmi.

Ofan á mjög góða matreiðslu bætist svo samhæfing tækni og listar í framsetningu réttanna á diskunum. Hún er í nýfrönskum stíl, róttækum. Meira að segja eru fersk sumarblóm notuð til að magna fagra liti réttanna. Niðurstaðan er, að gestir tíma varla að byrja að borða og eyðileggja skreytinguna.

Þótt matreiðslan sé góð, hefur hún ekkert sérstakt meginþema. Að hluta til er Mávurinn fiskréttastaður, sem býður fisk dagsins í hádegi og að kvöldi, en leggur þó jafnmikla áherzlu á kjötrétti. Að hluta til er þar reynt að minna á Suðurhafseyjar, en það lýsir sér þó einna helzt í hanastélum staðarins og að nokkru leyti útliti hans.

Matreiðsla Mávsins er í hefðbundnum og ópoppuðum meginstraumi nýfranskrar matreiðslu. Hún gæti alveg eins verið framin á fínu hóteli eða virðulegum viðskiptamatstað. Verðið er líka í þeim kantinum á kvöldin. Þrír réttir með kaffi kosta um 3.255 krónur án víns.

Í hádeginu er í Mávinum sérstaklega hagstætt tilboð, sem ekki er unnt að hafna. Þá er þríréttuð máltíð, með vali milli tveggja forrétta, fjögurra aðalrétta og tveggja eftirrétta, seld á um 1.145 krónur, sem gerir 1.305 krónur með góðu konfektmolakaffi. Hádegismatreiðslan gefur kvöldmatreiðslunni ekki eftir, en sparar örlítið með því að nota ágætlega þykkar pappírsþurrkur í stað tauþurrkna.

Að útliti er Mávurinn frumlegur. Lítið er eftir af hinum stílhreinu innréttingum Sjávarsíðunnar, nema svart marmaraflísagólfið. Hægra megin útidyra er um 40 sæta matsalur og vinstra megin er bar og kaffistofa með djúpum sófum. Einkennistákn staðarins eru lítil ljós, sem hanga í mjóum þráðum, þar sem á eru festir páfagaukar úr plasti.

Á miðju gólfi er röð pálmatrjá og mikill pottagróður er úti við glugga. Á veggjum eru stór málverk, sem ekki eru við minn smekk, svo og fatasnagar, sem gefa staðnum alþýðlegan svip. Gömul kommóða og glasaskápur eru við innvegg, í mikilli andstöðu við gráan og groddalegan þvottabala á barnum.

Hinn alþýðlegi bragur kemur líka fram í, að borðdúkar eru hafðir undir glerplötum til að spara þvott. Poppið magnast svo í óþægilegum trektarstólum, er ekki nýtast fólki, sem er myndarlega vaxið aftur. Svo og í marglitum borðbúnaði, sem er einstakur í sinni röð hér á landi og bara nokkuð skemmtilegur. Niðursoðin tónlist er fremur hefðbundin og þægileg. Hún drukknar sem betur fer í samræðum matargesta.

Þjónusta er afar þægileg í Mávinum, en misjafnlega kunnáttusamleg. Þjónustustúlkur ganga allar um í bláum suðurhafseyjablússum og sumar hverjar í stuttbuxum, væntanlega til að minna á suðrið.

Hanastél staðarins eru mörg, sum hver suðræn og sum áfengislaus, þar á meðal nokkrar útgáfur þekktra hanastéla. Vínlisti er misjafn, betri í rauðvíni en hvítvíni. Boðið er meðal annars upp á Cabernet Sauvignon frá Ástralíu, Chateau Barthez de Luze frá Frakklandi, Chianti Riserva Ducale og Barolo frá Ítalíu. Álitleg hvítvín eru Chateau Cléray og Sancerre frá Frakklandi. Flest vín staðarins, þar á meðal hin dýrari, er hægt að fá í glasatali.

Í hádegi hef ég prófað sérstaklega góða rækjusúpu með rjómatopp; og frábært síldarsalat með brúnu brauði og rauðrófum.

Að kvöldi reyndi ég laxarós, sem var nokkuð góður lax taðreyktur, með spínatsósu, gráðosti og rjóma. Ennfremur gott nauta- og laxatartar rifið saman í buff, dálítið sérstæða blöndu. Einnig meyra og góða snigla, ristaða í hvítlauk og fersku grænmeti, borna fram með léttu salati og glæsilegri ferskblómaskreytingu. Svo og heitt sjávarréttasalat með rækju, humri, hörpufiski, fiski, jöklasalati, sinnepssósu og graskersfræjum, nokkuð góðan mat.

Hæst forréttanna bar lúðu- rækju “carpaccio”, sem voru lúðubitar og rækjur, legnar í hvítvínsediki og sítrónusafa, með salati og blaðlaukssósu, afar falleg blanda og fínleg í bragði. Minnst varið fannst mér í reyksoðinn lunda, heitreyktan með rauðvíns- og rifsberjasósu, því að han minnti of mikið á reyktan fisk og kjötið var ekki nógu meyrt.

Sem aðalrétt fékk ég í hádegi ofbakaðan steinbít, alveg mátulega skammt eldaðan, með rjómaspínatsósu, sem var sérstaklega ljúffeng. Þetta var einn bezti réttur staðarins. Ennfremur einhverja þá beztu “lasagna”, sem ég hef bragðað, með ostasósu og hvítlauksbrauði. Í sama hádegi var á boðstólum “tortellini” og “tacos”.

Að kvöldi prófaði ég ljómandi góðan fiskrétt dagsins, sem var mildilega grillaður koli í grænni spínatsósu, borinn fram á mjög skrautlegan hátt. Enn betri var mátulega elduð tindabikkja, sem hér nefndist skötuvængir, ekki síðri en í toppveitingahúsi landsins við Tjörnina, borin fram með vínberjasmjörsósu. Athyglisverðastir voru humarhalarnir, greinilega ófrosnir á vertíðinni, með hinum beztu sem ég hef fengið á ævinni.

Af kjötréttum prófaði ég grillað og meyrt, frambærilegt nautakjöt “á gulum fleti”, það er að segja með béarnaise-sósu. Einnig jurtakryddaðuð og ofnsteikt lambarif, fituskorin rifmegin, borin fram með mildri grænpiparsósu, ekki sérlega merkilegan rétt. Matreiðsla þessara rétta náði ekki staðli fiskréttamatreiðslunnar.

Af eftirréttum hef ég prófað fína súkkulaðihnetutertu, fulla af hitaeiningum. Ennfremur heitt bláberjapæ með þeyttum rjóna, afar gott. Og loks listilega fram borna ávexti ferska.

Jónas Kristjánsson

DV