Mávurinn

Veitingar

Jónatan Livingstone Mávur er óvenjulega dýr staður, á svipuðu verðlagi og Perlan og Grillið, en státar hvorki af sama glæsibrag í umbúnaði né í þjónustu. Stundum fá gestir allt annað en það, sem þeir panta. En þeir fá yfirleitt gott að borða og það skiptir mestu máli.

Raunar er Mávurinn fremur groddalegur staður, þar sem gestir borga að meðaltali 3575 krónur fyrir þríréttaðan mat fyrir utan drykkjarföng og fá ekki einu sinni tauþurrkur á glerplötur borðanna í hádeginu. Við það tækifæri er þó hægt að fá súpu og fiskrétt dagsins á 1195 krónur og er það verð frekar við hæfi umgerðarinnar.

Vinstra megin við innganginn er kaffi- og hanastélsstofa með djúpum sófum amerískum. Hægra megin er ruglingslega poppaður matsalur með ljótum málverkum og stórkarlalegum fatasnögum, en fínlegum þráðarljósum og sérkennilegum trektarstólum þrífættum, sem sennilega henta hvössum rössum meinlætamanna.

Vínglös á borðum eru sérkennilegt fyrirbæri, eins konar bastarður blómapotta og eftirréttaskála. Diskar eru fjörlegir, hver með sínum lit og skrauti. Meira að segja kaffisettið reyndist vera poppað í fjörugum litum.

Svonefnd sjávarsíðusúpa úr humarsoði með fínsöxuðum humri, rækjum og hörpufiski var bragðsterk og góð. Bragðmild laxasúpa dagsins var einnig góð og sama er að segja um fremur þykka grænmetissúpu dagsins.

Að kvöldi voru boðnar kókoslegnar rækjur með hráum lauk, skemmtilega sérkennilegur réttur. Laxahrábuff úr hráum og reyktum laxi, með kapers, lauki og rauðrófum var ágætt, þótt kapersinn yfirgnæfði dálítið í bragði, eftirminnilegur réttur. Fyllt kúrbítsblóm með hörpuskeljafroðu var mildur og mjög góður réttur með fínlegri humarsósu. Laxa- og lúðufiðrildi með finkul og Sambucca Romana smjörsósu var ljúfur réttur. Grafið lamb var vel kryddað með balsamediki, hinn prýðilegasti forréttur.

Milli forrétta og aðalrétta var borið fram ágætt rabarbara- og Ólafssúrukrap. Súran gaf sterkt mintubragð.

Grillaður skötuselur með mangó, ananas, banönum og kókos var mjög góður, borinn fram með fremur bragðsterkri karrísósu. Steinbítskinnar voru fremur góðar, með góðri fennikel-sósu og vorlauk. Ravioli með humarfyllingu var hins vegar ekki merkilegt. Bragðgóð fiskifantasía úr afla dagsins hafði að geyma humar, lax, rauðsprettu, kóngakrabba og var að öllu leyti nákvæmlega tímasett í matreiðslu. Grillaðir humarhalar í skelinni voru góðir, bornir fram með hvítlauk og sveppum. Grillaður urriði var fremur þurr. Allgóð var nautasteik með furuhnetum og rúsinum í sterkri villisveppasósu.

Grand Marnier-blönduð súkkulaðifroða var létt og góð, borin fram með heitri og rauðleitri súkkulaðisósu. Góðar voru þrjár marenskökur, hjúpaðar súkkulaði. Sælgætisterta með blönduðum hnetum, ís og ávaxtasósu var sérstaklega góð. Hægt er að fá blöndu þessara forrétta og ístertu að auki, allt glæsilega fært upp á disk.

Þótt poppuð umgerð, fátæklegur borðbúnaður og götótt þjónusta hæfi ekki himinháu verðlagi staðarins, hæfir matreiðslan henni vel, því að hún er fyrsta flokks. Hún er að vísu ekki eins markviss í stíl og hún var fyrir fáum árum, þegar hún var nýfrönsk, en hún er vönduð enn.

Jónas Kristjánsson

DV