Mávurinn

Veitingar

Mávurinn við Tryggvagötu andspænis Hafnarbúðum ber svip milliverðsstaða, en er ein af dýru matstofunum. Þótt hann sé kallaður “við sjávarsíðuna”, er hann ekki hefðbundinn sjávarréttastaður, enda ekki í boði neinn fiskréttur dagsins annar en sjö fiska sýnishorn fyrir útlendinga. Raunar er alls enginn seðill dagsins.

Þótt staðurinn veki sumpart væntingar, sem ekki rætast, er hann samt góður. Matreiðsla fiskrétta er með hinni vönduðustu, sem þekkist í borginni og þjónusta fyrsta flokks. Andrúmsloftið er notalegt innan um undarlegar innréttingar, sérkennilega trektarstóla, örljósanet í lofti, ljót risamálverk á veggjum og lifandi blóm á glerplötum borðanna.

Þetta er lítill staður með of háværri tónlist, aðeins opinn á kvöldin. Vinstra megin inngangs er bar og setustofa með djúpum sófum. Hægra megin er veitingarými fyrir um 30 manns. Fínust eru salernin að tjaldabaki, þar sem hver gestur fær eigið handklæði.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 1940 krónur fyrir utan vel valin og ekki dýr vín, meðal annars frá Chile, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Rækilegar útskýringar fylgja vínlistanum, en árgangar eru ekki skráðir, svo að útkoman er þykjustuleg.

Volgar brauðkollur hússins og smjördeigsferningar komu fljótt á borð. Ennfremur sýnishorn af kryddlegnum laxi eða kryddlegnu lambakjöti meðan beðið var eftir forrétti. Milli forrétta og aðalrétta var borið fram freyðivínskrap. Allt sló þetta virðulegan, franskan tón. Hversdagslegra var staðlað meðlæti á hliðardiskum með aðalréttum.

Pönnusteiktir sniglar voru meyrir, blandaðir gljáðum perlulauk, sveppum og beikoni, í afar sterkri og sætri rauðvínssósu. Hvítlauksristaður smokkfiskur var líka meyr og góður, með rósmarínkryddaðri og mildri kampavínssósu. Sjávarsíðusúpa reyndist vera gott og milt humarsoð með fínskornum skelfiski.

Anísleginn lax var góð tilbreyting frá graflaxi, með litlum tómati, lárperumauki, sinnepi, laxahrognum og bragðsterkum ostakexgrindum, svo og hrásalati í stökku næfurbrauði, sem mótað var eins og blóm. Kryddlegið lamb var fremur gott, með fallegu hrásalati, blönduðu feta-osti og olífum. Hreindýrakæfa var gróf, með furuhnetum, portvínslegnum rúsínum og góðu hrásalati.

Einna bezti forrétturinn var blandað hrásalat með rauðlauk, feta-osti, litlum tómötum, olífum, nokkrum tegundum af litlum hnetum og bragðsterkri ostakexgrind. Þessi skrautlegi réttur var borinn fram í fagurri skál úr stökku næfurbrauði úr smjördeigi og tómatsósa látin koma á óvart í sérstakri skál.

Mávurinn sérhæfir sig í matreiðslu sjaldséðra fiska. Pönnusteiktur langhali var hæfilega og skemmtilega eldaður í kartöfluþráðaskel, mjúkur og fínn, stinnur og hvítur, með humarbitum. Grillaður barri var einnig meyr og fínn, með blaðlauk og hvítvínsblandaðri smjörsósu. Ekki var lakari heitreykt og hringvafin bleikja með beðju af gulrótarþráðum og milt engifer-kryddaðri gulrótarsósu. Góða heitreykingarbragðið leyndi sér ekki.

Kjötréttir reyndust lakari. Folaldasteik var meyr, en bragðdauf, með hæfilega sterkri grænpiparsósu. Lambasneiðar voru sæmilegar, með furuhnetum, sveppum og tómatsafa. Villibráðartvenna var misheppnuð, með ólseigri gæs og frambærilegum svartfugli, borin fram með afar sterkri plómusósu með yfirgnæfandi kóríanderbragði.

Jónas Kristjánsson

DV