Mávurinn

Veitingar

Á matseðlinum segir, að Jónatan Livingston Mávur hafi “fengið viðurkenningu sem einn af tíu beztu veitingastöðum í Evrópu með áherzlu á fiskrétti og villibráð.” Það er stórt orð Hákot og stækkar, þegar menn treysta sér til að vitna í það sjálfir.

Í fyrsta lagi er Jónatan ekki fiskréttastaður, ekki einu sinni einn af tíu beztu á Íslandi, hvað þá í Evrópu allri. Hann hefur ekki einu sinni á boðstólum ferskan fisk dagsins, sem fæst þó á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar, án þess að menn berji sér á brjóst.

Í öðru lagi eru framboð og gæði villibráðar ósköp svipuð því, sem fæst á öðru hverju veitingahúsi borgarinnar á vertíðinni. Með sjálfshóli vekur staðurinn væntingar, sem hann stendur ekki undir.

Sem dæmi um matreiðsluna má nefna langhala, fyrst pönnusteiktan og síðan ofnsteiktan innan í brenndum kartöfluþráðum, orðinn þurr af meðferðinni, borinn fram í sesamkryddaðri ostasósu og með kryddvættum grænmetisþráðum, sem virðast stöðluð mötuneytisfæða með flestum aðalréttum staðarins.

Sítrónuleginn langhali var borinn fram í leginum, með símyljukornum á diskbarmi, staðlaðri einkennisskreytingu flestra rétta staðarins. Pönnusteiktir sniglar voru í þurrara lagi, í hring utan um gljáðan perlulauk, sveppi og beikon á stökkri köku í miðju, bornir fram með rauðvínssósu.

Betri var hvítlauksristaður smokkfiskur í bleksósu og sinnepi, meyr og fínn, raðað í geisla út frá miðju rófu- og gulrótarþráða. Bezt var steinseljusalat með góðri blöndu af símyljukornum, tómötum, lauk og myntu í miðju, salatblöðum utar, vætt með sítrónusafa og olífuolíu.

Gæsabringa var sjálf hæfilega elduð, en lýtt með fylgihlutum, sem fólust í staðlaðri kartöfluböku staðarins og mildri hveitisósu uppbakaðri, sem kölluð var villibráðarsósa. Nautalund var góð, en lýtt af stöðluðu kartöflubökunni og uppbakaðri hveitisósu með skán.

Ferskir ávextir suðrænir voru bornir fram á glæsilegan hátt sem fylling í melónu, með hindberjum og blæjuberjum á diskbarmi, vættir með kirsuberjalíkjör og appelsínulíkjör í senn.

Hversdagslegri var þurr súkkulaðikaka með hindberjum og blæjuberjum, mangó, ís og rjóma. Gott bananabragð var að lagskiptri súkkulaði- og bananatertu, sem sögð var með enskri vanillusósu, en var með stöðluðu mangó, ís og rjóma.

Þótt eldhúsið spari sér vinnu með stöðluðum endurtekningum, er verðið fremur hátt, 4.200 krónur á mann fyrir þríréttað með kaffi. Þjónusta er fagleg og góð. Húsakynni eru notaleg og þægileg, en ekki fínleg. Heitir litir í tjöldum og vafningsplöntur á málmgrindarturnum vega á móti kuldalegum örljósum og groddalegum málverkum.

Margt er gott um Jónatan að segja, svo sem tauservéttur og tannstöngla, volgar bollur og væna tónlist, en sem fiskrétta- og villibráðarstaður siglir hann undir fölsku flaggi.

Jónas Kristjánsson

DV