Með ær og kýr við barm.

Greinar

Ríkissjóður er alls ekki eins fátækur og almennt virðist vera talið. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru ýmsir liðir, sem bera vitni um örláta ríkisstjórn, er hyggst dreifa þjóðarsilfri út um holt og hæðir.

Að vísu hafa ýmsir þarfir eða réttlátir liðir verið skornir niður eða hreinlega strikaðir út. En það stafar ekki af fátækt, heldur breyttu verðmætamati. Þannig fer þjóðarbókhlaðan út og millilandaflugstöðin inn.

Óbeit ríkisstjórnarinnar nær allt frá sjóðum til eflingar iðnaðar yfir í flugbjörgunarsveitir og námsstuðning við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er krumpaða útgáfan af hugsjóninni um ríkissparnað.

Eina verulega stóra hugsjón á ríkisstjórnin í fjárlagafrumvarpinu. Hún er að sem allra mest verði framleitt af óþörfum afurðum kinda og kúa. Til þeirrar hvatningar á að verja 8,4% af öllum útgjöldum fjárlaga á næsta ári.

Þessi hluti af útgjöldum ríkisins til landbúnaðar á að nema hálfum öðrum milljarði króna á næsta ári. Þetta eru beinu styrkirnir, niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar, aðeins þrír af mörgum landbúnaðarliðum.

Stundum hefur verið deilt um, fyrir hverja niðurgreiðslurnar séu. Það breytir ekki því, að áhrif þeirra eru fólgin í meiri neyzlu og meiri framleiðslu á kjöti og mjólkurvörum en væri við ófalsaðar aðstæður.

Ef við hugsum okkur, að þessar vörur væru ekki framleiddar hér frekar en korn og sykur, þyrfti engar niðurgreiðslur, enga styrki og engar útflutningsuppbætur. Og þá ætti ríkissjóður 1,5 milljarða í árlegan afgang.

Þessi upphæð er svo rosaleg, að hún mundi nægja til að veita öllum kúa- og kindabændum landsins einnar milljónar króna húsnæðislán á næstu þremur árum. Samt væri afgangur í smotterí á borð við íslenzkan iðnað og munaðarleysingja.

Einnig er hugsanlegt, að skattgreiðendur vildu renna hýru auga til upphæðarinnar. Hún mundi rúmlega nægja til að fella niður allan tekjuskatt íslenzkra launþega. Segjum svo ekki, að kotungsbragur sé á ríkissjóði.

Loks má benda á, að þessi 8,4% fjárlaga mundu nægja til að greiða öllum kinda- og kúabændum landsins heil þingmannslaun. Og losa þá um leið undan ánauð vinnslustöðva, sem heimta síaukna veltu upp í offjárfestinguna.

Þjóðarsilfur þetta fellur ekki aðeins í grýtta jörð. Það hvetur til framleiðslu á rándýrum afurðum, sem þjóðin getur ekki notað. Þannig bindur það ekki aðeins fjárlagafrumvarp næsta árs, heldur ókominna ára líka.

Meðan 1.500.000.000 krónum er varið á ári til að halda úti skaðlegum kindum og kúm, eru auðvitað ekki aflögu 5.000 krónur til námsstuðnings við munaðarlausa, vanrækta eða fatlaða unglinga. Þetta er spurning um forgangsröð.

Ef leiftursókn ríkisstjórnarinnar gegn ofneyzlu á að ná árangri, verður hún að hafa fé til þess annars vegar að vernda smælingjana og hins vegar til að stuðla að eflingu arðbærrar iðju og flutningi starfskrafta til hennar.

En það hefur hún ekki meðan hún hefur önnur eins gæludýr og ær og kýr sér við barm. Og fjárlagafrumvarpið er einmitt ömurlegast fyrir þá sök, að það byggist á úreltu verðmætamati og úreltri forgangsröð.

Jónas Kristjánsson

DV