Með bónus og afgangi

Greinar

Happaþrenna með bónus var núverandi ríkisstjórn kölluð, þegar þrír stjórnmálaflokkar mynduðu hana með hjálp Stefáns Valgeirssonar. Nú má kalla hana happaþrennu með bónus og afgangi, þar sem afgangur Borgaraflokksins styður hana óbeint, þegar á herðir.

Eðlilegt er því, að viðræður hefjist milli ríkisstjórnarinnar og afgangsins af Borgaraflokknum um beina stjórnaraðild afgangsins, sem komist til framkvæmda upp úr áramótum. Þá fær Steingrímur loks huldumanninn, sem hann vantaði. Eða öllu heldur hulduherinn.

Ef ekki verður af inngöngu Borgaraflokksafgangsins eða hluta afgangsins í ríkisstjórnina upp úr áramótum, er eðlilegt, að Steingrímur gefist upp á að stjórna landinu með sífelldum upphlaupum og handarbakaafgreiðslu á borð við það, sem nú er að gerast. Og kosið verði í vor.

Þjóðin borgar kostnaðinn af öllum látunum. Hún borgar fyrirgreiðslukerfið, sem komið var á fót í haust til að fá eitt atkvæði Stefáns Valgeirssonar til stuðnings við ríkisstjórnina. Þetta kerfi á mikinn þátt í erfiðleikunum við að ná saman endum í sjóði skattgreiðenda.

Þjóðin borgar svo núna fjölgunina í utanríkisþjónustunni, sem verður við að losna við Albert úr stjórnmálum, svo að Steingrímur geti fengið beint og óbeint liðsinni hjá afganginum af Borgaraflokknum. Öll herkænska hans endar í reikningum til skattgreiðenda.

Eitt alvarlegasta atriði svokallaðrar kænsku í stjórnmálum er, hversu ófeimnir þjóðarleiðtogar eru orðnir við að senda okkur reikninga. Sum gjafmildi ráðherra er að vísu ódýr, svo sem að gefa fegurðardísum rauða passa, en önnur er dýr, eins og handboltahöllin fræga.

Hulduherinn hljóp inn í hlýjuna til Steingríms fyrir eitt stjórnarsæti í fyrirgreiðslusjóði Stefáns Valgeirssonar og væntanlega fleiri bitlinga síðar. Þar með slapp ríkisstjórnin með minni breytingar á bráðabirgðalögunum en verið hefði með sameinaðri stjórnarandstöðu.

Afgangurinn af Borgaraflokknum ber auðvitað á því fulla ábyrgð, að breytingar bráðabirgðalaganna urðu minni en ella. Hann ber líka ábyrgð á lögunum í heild, allt frá upphafi þeirra, því að hann hefur með atkvæðum sínum staðfest, að þau voru gild á sínum tíma.

Til dæmis hefur Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir tekið ábyrgð á ákvæðum bráðabirgðalaganna um afnám samningsréttar um nokkurn tíma, þótt endanleg útgáfa laganna feli í sér, að réttinum sé skilað aftur. Hún hefur með staðfestingu fallizt á heildarsögu laganna.

Sennilega hafa herkænskumenn ríkisstjórnarinnar lengi vitað, að gefið sendiherraembætti í París mundi tryggja ríkisstjórninni líf fram yfir áramótin. Það mundi skýra, af hverju oddvitar stjórnarliðsins á alþingi keyrðu fram og aftur yfir stjórnarandstöðuna.

Að þessu sinni var vikið frá venjubundnu samráði stjórnarliðs við stjórnarandstöðu á þingi. Reglubundnir samráðsfundir lágu að mestu niðri. Þar á ofan tók formaður þingflokks Framsóknar upp grófari siði en áður við færibanda- og handarbakaafgreiðslu úr nefnd.

Æðibunugangur og yfirgangur formannsins var slíkur, að ætlunin var greinilega ekki, að nýbyrjaðar viðræður við stjórnarandstöðuna leiddu til samkomulags um niðurstöðu. Ætlunin var allan tímann að treysta á lítilþægni afgangsins af kjósendalausum Borgaraflokki.

Vel fer á, að happaþrenna með bónus og afgangi mæti kjósendum sameinuð með allt á hælunum, er ekki verður lengur með herkænsku vikizt undan örlögunum.

Jónas Kristjánsson

DV