Með brauki og bramli.

Greinar

Alþingi lauk störfum með brauki og bramli í þessari viku. Undir lokin voru uppákomur orðnar daglegt fyrirbæri, margar hverjar til lítils sóma. Mest réðist þetta af óskum um afgreiðslu 30 stjórnarfrumvarpa á mun styttri tíma en þarf til skynsamlegrar umfjöllunar.

Hin vafasömustu af þessum stjórnarfrumvörpum náðu flest að verða að lögum, þrátt fyrir rökstuddar aðvaranir. Þannig eru komin ný lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins, Framkvæmdasjóð, Byggðasjóð og nafnlausa þróunarstofnun, svo að nefnd séu nokkur verstu málin.

Þingmenn stjórnarliðsins og í sumum tilvikum einnig þingmenn stjórnarandstöðunnar sporðrenndu ýmsum slíkum lagabálkum á færibandi. Tímanum undir lokin vörðu þeir hins vegar til langvinnra skrípaláta út af ýmsum málum, sem flest hafa verið lengi á döfinni.

Stjórnarandstaðan og tveir þingmenn Framsóknarflokksins fluttu tvö aðskilin, en samhljóða frumvörp um húsnæðismál. Í báðum urðu þau mistök, að niður féll sjálft markmiðið, jafnstaða íbúðalána til Búseta við núgildandi forgangslán til verkamannabústaða.

Frumvörpin urðu þannig í anda þeirra þingmanna sjálfstæðisflokksins, sem vilja ekki, að Búsetalán fái forgang umfram almenn íbúðalán. Flutningsmenn urðu því að leggja fram ný og leiðrétt frumvörp. Í svona ógöngum lenda menn, þegar þeir hafa ekki tíma til að lesa eigin mál.

Síðan urðu auðvitað harðvítugar deilur um, hvort hin nýju og leiðréttu frumvörp mættu vera á sömu þingskjalanúmerum og hin gölluðu. Svo fór, að deildarforseti braut þingsköp með því að leyfa þetta. En það dugði ekki og tvíburamálið dagaði uppi án afgreiðslu.

Í deilum um skólaskyldu varð ráðherra undir í fyrri þingdeild. Þar var samþykkt frumvarp um átta ára í stað níu ára skólaskyldu, gegn harðvítugum mótmælum ráðherra. Í síðari deild strandaði málið hins vegar, svo að níu ára skólaskyldan er enn í gildi.

Hingað til hafa af hagkvæmnisástæðum venjulega verið samþykktar undanþágur frá níu árunum. En deilurnar um átta ára frumvarpið urðu til þess, að ekki vannst tími til að samþykkja neinar undanþágur að þessu sinni. Er talið, að það verði erfitt í framkvæmd.

Mest varð sjónarspilið í umræðum um bjórinn. Fyrst tók fyrri þingdeild efnislega afstöðu með bjórnum. Síðan neitaði síðari deild að taka efnislega afstöðu og samþykkti í staðinn ráðgefandi skoðanakönnun um bjórinn í ár, undir heiti þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar málið kom aftur til fyrri deildar, vildu sumir þingmenn halda fast við efnislega afstöðu, aðrir vildu leita málamiðlunar milli deilda og enn aðrir vildu gefa eftir fyrir niðurstöðu hinnar deildarinnar, svo að eitthvað yrði gert, sem færði bjórinn nær.

Þessi flókni klofningur milli deilda og innan varð til þess, að liðið, sem var fremur hlynnt bjórnum, sundraðist í nokkra hópa. Enginn þessara hópa náði yfirhöndinni og sjónarmið þeirra allra féllu dauð. Minnihluti andstæðinga bjórsins hrósaði því frægum sigri.

Niðurstaða þessara mála og ýmissa fleiri fór ekki eftir efnislegri afstöðu af hálfu meirihluta þingmanna. Hún byggðist á hinum gífurlega tímaskorti undir lokin. Klukkustundum og jafnvel nóttum saman var rifizt um tækniatriði, en efnisatriðum sporðrennt.

Ekki jók þessi lokasprettur virðingu Alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV