Með brauki og bramli

Greinar

Heilbrigðiskerfi Íslendinga er ekki það dýrasta í heimi, þótt heilbrigðisráðherra hafi nokkrum sinnum sagt það á síðustu vikum. Samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum reikningsaðferðum, sem notaðar eru af Efnahags- og framfarastofnuninni, erum við ekki dýrust.

Heilbrigðisráðherra hefur hins vegar pantað sér skýrslu frá Hagfræðistofnun háskólans, þar sem kemur fram, að kostnaður hins opinbera af heilbrigðiskerfinu sé meiri hér á landi en annars staðar og hafi aukizt nokkru hraðar hér á landi er annars staðar.

Sama hagfræðistofnun hefur líka fundið, með tilþrifum í reiknikúnstum, að nokkurra milljarða sparnaður fáist árlega, ef skólatími verði lengdur og gerður samfelldur. Þetta gerði hún að beiðni menntaráðherra þeirrar ríkisstjórnar, sem var næst á undan þessari.

Niðurstöður stofnunarinnar um heilbrigðismálin hefðu verið trúverðugri, ef betur hefði verið skýrt, hvers vegna hinar sérstæðu reikningsaðferðir hennar ættu að teljast betri en þær, sem tíðkast hjá Efnahags- og framfarastofnuninni og öðrum alþjóðlegum stofnunum.

Niðurstöðurnar hefðu líka verið trúverðugri, ef stofnunin og heilbrigðisráðherra sem túlkur niðurstaðna hefðu gert skarpari mun á kostnaði hins opinbera og heildarkostnaði þjóðarinnar, svo að neytendur upplýsinga hefðu áttað sig betur á sérstöðu útreikninganna.

Staðreyndin er, að í kostnaði við heilbrigðismál erum við á svipuðu róli og flestar aðrar þjóðir í norðanverðri Evrópu, töluvert ódýrari en Bandaríkjamenn og töluvert dýrari en Bretar og Japanir. Okkar heilbrigðiskostnaður er alls ekki óvenjulegur eða afbrigðilegur.

Niðurskurður heilbrigðismála um hálfan milljarð króna á þessu ári stafar ekki af, að kostnaður við þau hafi farið úr böndum. Niðurskurðurinn stafar einfaldlega af, að ríkisstjórnin þarf að útvega meira en milljarð til að borga stóraukin útgjöld til landbúnaðar.

Allur niðurskurður velferðarkerfisins, hvort sem er í heilbrigðismálum, skólum, tryggingum eða á öðrum sviðum, sem varða hagsmuni peningalítils almennings, fer beinlínis í að auka útgjöld ríkisins til velferðarkerfis hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Nær væri að játa þetta samhengi heldur en að framleiða villandi upplýsingar um, að sjúkrahús og skólar séu of dýrar stofnanir. Þjóðin þyrfti að geta séð, hvers konar velferð hefur forgang og dregið af því þá rökréttu niðurstöðu, að búvörusamningur er ekki ókeypis.

Hinn sami heilbrigðisráðherra, sem flaggar villandi tölum, er að reyna að spara með því að leggja einn milljarð í endurbætur á Borgarspítalanum, svo að hann geti tekið við hlutverki Landakotsspítala. Af þessum milljarði þarf sennilega að greiða tæpan hálfan á þessu ári.

Það er alveg sama, hvernig reiknuð er hagkvæmni sameiningar Borgarspítala og Landakotsspítala. Niðurstaðan er mjög mikill kostnaður, mikil óhagkvæmni. Ódýrasta leiðin í stöðunni er að reka spítalana á aðskilinn hátt enn um sinn alveg eins og verið hefur.

Kenningin um sparnað af sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala var vanhugsuð. Það var fljótræði að ráðast í bramboltið, sem við höfum verið vitni að í vetur. Með slíkum vinnubrögðum mun heilbrigðisráðherra takast að gera íslenzka kerfið dýrast í heimi.

Þótt ýmislegt megi laga í heilbrigðisgeira ríkisins, er spítalabrauk og -braml ráðherrans ekki til þess fallið að útvega peninga til að sóa í búvörusamning.

Jónas Kristjánsson

DV