Með fjárreiður undir borði

Greinar

Djarfar tilraunir olíufélaganna til að skipta markaðinum milli sín með því að víkja hvert fyrir öðru á Austfjörðum vekja lítil viðbrögð embættismanna og stjórnmálamanna. Það stafar ekki aðeins af sofandahætti, heldur af gamalgróinni velvild í garð gjafmildra.

Stjórnmálaflokkar hér á landi, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, eru mjög háðir beinum og óbeinum framlögum stórfyrirtækja. Oft hefur verið reynt að fá upplýsingar um þessi mál upp á borðið, en ekki tekizt vegna eindreginnar andstöðu flokkanna.

Við erum eftirbátar annarra vestrænna þjóða á þessu sviði. Í löndum á borð við Bandaríkin og Þýzkaland eru reikningar og viðskiptamannayfirlit flokkanna opin skjöl, sem allir mega sjá. Þetta er þar talið vera eðilegur þáttur í gegnsæju þjóðfélagi markaðsbúskapar.

Í vestrænum ríkjum er talið eðlilegt, að stjórnmálaflokkar séu styrktir, þar á meðal af stórfyrirtækjum. Skilyrði fyrir slíku er hins vegar, að þessi fjárhagslegu hagsmunatengsli séu ekki falin undir borði, heldur séu þau uppi á borði, öllum sýnileg, sem sjá vilja.

Hér er verið að tala um bein framlög og óbein framlög á borð við kaup á happdrættismiðum, útvegun á aðstöðu, afslátt af viðskiptum, ef þetta er í stórum stíl, en ekki verið að eltast við lágar upphæðir, sem stjórnmálaflokkanir fá frá venjulegum einstaklingum.

Þetta er raunar brýnna hér á landi, þar sem markaðskerfið er skemmra á veg komið og þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa fleiri tækifæri til að misnota aðstöðuna í þágu sinna beztu vina. Við búum enn við einkaleyfi, sérleyfi, kvóta og aðra pólitíska ofanstýringu.

Andstaða íslenzkra stjórnmálaflokka gegn opnu bókhaldi byggist eingöngu á ótta við, að fólk sjái samhengi milli beins og óbeins fjárstuðnings annars vegar og einkavinavæðingar, sérhannaðrar mismununar, sérleyfa og annarrar séríslenzkrar spillingar.

Af sama toga er andstaða flokkanna við aðild landsins að Evrópusambandinu. Því meira, sem landið dregst inn í almennar heilbrigðisreglur markaðarins, þeim mun minni séríslenzka spillingu er unnt að stunda. Þannig hafa flugfarseðlar orðið miklu ódýrari en þeir voru.

Engar slíkar framfarir í atvinnulífinu og í stöðu neytenda eru frá íslenzkum stjórnmálaflokkum runnar, heldur er umbótunum beinlínis þröngvað upp á þá í krafti fjölþjóðlegra skuldbindinga, sem ríkisvaldið neyðist til að taka á sig í samfélagi evrópskra ríkja.

Því meira sem við bindumst Evrópu, þeim mun meira þrengist svigrúm íslenzkra stjórnmálaflokka til að misnota lög og reglugerðir og opinberar stofnanir til að sinna gæludýrum kerfisins. Þess vegna eru flestir helztu stjórnmálamenn landsins andvígir aukinni Evrópuaðild.

Meðan íslenzkir kjósendur láta ekki hart mæta hörðu og refsa ekki stjórnmálaflokkum með lokað bókhald og lokaðar viðskiptamannaskrár, munu flokkarnir halda gögnum þessum lokuðum. Meðan kjósendur vilja éta það, sem úti frýs, verða þeir látnir éta það, sem úti frýs.

Engin efnisleg svör hafa verið gefin við gagnrýni á lokaða kerfið. Eina vörnin er, að það sé ljótt af mönnum að treysta ekki stjórnmálaflokkunum til góðra verka. Engin skýring fæst á því, hvers vegna ekki má haga fjárreiðum flokkanna í stíl við það, sem gerist erlendis.

Meðan kjósendur leyfa flokkunum að hafa fjármál sín í felum, geta gjafmild stórfyrirtæki komið sér saman um að brjóta siðalögmál markaðsbúskaparins.

Jónas Kristjánsson

DV