Ríkisstjórnin hefur þegar gengið of langt til móts við kröfur þrýstihópa vinnumarkaðarins og má ekki ganga lengra. Hún hefur í fáti boðið hefðbundinn félagsmálapakka, sem nemur 600-800 milljónum króna í kostnaði og verður fjármagnaður með nýjum lánum í útlöndum.
Í stað þess að semja sín á milli hafa afætur afkomendanna ginnt ríkisstjórnina til að leggja byrðar af lífskjörum þeirra á herðar komandi kynslóða, sem eiga að endurgreiða lánin. Með orðunum afætur afkomendanna er hér átt við þrýstihópana beggja vegna borðsins.
Þrýstihópar vinnumarkaðarins eru skipaðir þrautreyndum pókerspilurum, sem hafa reynzt ofjarlar reynslulítilla ráðherra. Forsætisráðherra virðist trúa því, að upplausn blasi við, ef ríkið taki ekki svona mikinn þátt í að koma á nýjum heildarsamningum um kjör.
Aldrei hefur ríkisstjórn verið jafn grátt leikin af pókerspilurum vinnumarkaðarins. Þeir neituðu að ræða sín í milli nema fyrst kæmi á borðið félagsmálapakki frá ríkisstjórninni. Venjulega hafa slíkir pakkar komið fram á lokastigi samninga til að leysa endahnútinn.
Rökin fyrir afskiptum af kjarasamningum, sem felast í félagsmálapökkum ríkisstjórna, er, að þeir komi á vinnufriði með því að brúa lítið bil, sem eftir stendur að loknum árangursríkum samningaviðræðum, sem eru langleiðina en ekki alla leiðina komnir í höfn.
Að þessu sinni er ekki verið að brúa neitt bil, því að ekki er einu sinni ennþá vitað, hvert bilið verður. Pókerspilarar þrýstihópanna hafa tekið félagsmálapakkanum eins og hverju öðru útspili. Þeir heimta miklu meira og eru ekkert að flýta sér að gera pókerinn upp.
Ríkisstjórnin lét taka sig á taugum. Ekkert bendir til þess, að fólk vilji taka á sig herkostnað verkfalla til að koma kostnaði af lífskjörum sínum yfir á herðar afkomendanna. Verkfallsógn út á léleg spil er ódýr blekking, sem ekki verður staðið við, þegar á reynir.
Með taugaáfallinu er ríkisstjórnin að fórna árangri, sem hún hefur náð á ýmsum sviðum. Hún glatar tækifæri til að draga úr hluta ríkisins í þjóðarbúinu, þrátt fyrir mikla fyrirhöfn, er einn ráðherrann lýsti svo, sem hann stæði blóðugur upp að öxlum í niðurskurði.
Með taugaáfallinu er ríkisstjórnin að fórna sigri sínum á verðbólgunni. Með félagsmálapakkanum mun aukast þensla í þjóðfélaginu og kaup á innfluttum vörum, svo og eftirpurn lánsfjár og þar með vextir. Verðbólgan mun aftur byrja að lyfta sér upp úr núllinu.
Áhættuna tekur ríkisstjórnin af ótta við upplausn, sem engin hefði orðið, af því að fólk vill ekki fara í verkfall. Taugaáfallið veldur því, að hún þorir ekki einu sinni að taka biðlaun af embættismönnum, sem halda áfram í starfi hjá einkavæddum ríkisfyrirtækjum.
Ef ríkisstjórnin hefði haldið sínu niðurskurðarstriki og sagt þvert nei, hefði það verið í samræmi við stefnu hennar. Margir hefðu þá virt ríkisstjórnina fyrir stefnufestu, þótt aðrir hefðu heldur kosið félagsmálapakkana. Vinsældir nást ekki einungis með vinsældakapphlaupi.
Taugaveiklun ríkisstjórnarinnar lýsir sér í öðrum myndum. Til dæmis lét hún saltfiskeinokunina hræða sig til að stöðva leyfi til óháðra útflytjenda, með röngum upplýsingum um, að þeir væru að undirbjóða einokunina. Ríkisstjórnin liggur flöt fyrir þrýstihópum.
Vondur er félagsmálapakki ríkisstjórnarinnar, en verra er, ef hún bætir við þann pakka til að þjónusta pókerspilara, sem hafa hunda eina á hendinni.
Jónas Kristjánsson
DV