Með korti og klóm

Greinar

Bankar landsins hafa rottað sig saman um að nýta aðstöðu sína í nýja aðferð til að fá almenning til að borga brúsann af rangri útlánastefnu. Til þess ætla þeir að okra á svokölluðum debetkortum, sem í Danmörku eru ókeypis og án gjaldtöku af kaupmönnum og neytendum

Bankarnir ætla að fæla fólk frá ávísanaheftum með því að þrefalda verð þeirra. Þannig fækka þeir flóttaleiðum fólks undan hinu nýja kerfi, sem felur einkum í sér, að korthafi greiði 10 krónur ofan á hverja færslu. Þetta er augljós tilraun til að hafa fé af neytendum.

Neytendur þurfa núna ekki að greiða eina einustu krónu ofan á færslur í krítarkortakerfinu, auk þess sem þeir fá vaxtalaust lán til nokkurra vikna. Debetkortafærslur eru hins vegar staðgreiðslur og kosta þar á ofan tíu krónur hver. Krítarkortin eru greinilega hagstæðari.

Það er yfirlýst stefna bankanna, að velta debetkorta eigi að draga úr veltu krítarkorta. Þessi stefna felur í sér, að neytendur fái dýra kortaþjónustu í stað þeirrar kortaþjónustu, sem hefur hingað til verið ókeypis. Bankarnir eru með þessu að reyna að hafa fólk að fífli.

Ef bankarnir ýta á eftir þessu með því að gera krítarkortin óhagkvæmari á sama hátt og þeir ætla sér í ávísanaheftum, hefur almenningur helzt þá undankomuleið að færa sig aftur á bak til seðlanna, hins frumstæða gjaldmiðils, sem rafeindamiðlar áttu að leysa af hólmi.

Samráðsmenn bankanna ætla ekki aðeins að hafa fé af neytendum með þessum hætti, heldur ætla þeir að leggja 0,7-1,7% skatt á kortaveltu fyrirtækjanna í landinu. Skattheimtan er rökstudd á þann undarlega hátt, að Áfengisverzlun ríkisins hafi ráð á að borga hana!

Ofan á þetta er svo reynt að telja fólki trú um, að þessi skattheimta muni á einhvern dularfullan hátt lækka vöruverð í landinu. Miklu líklegra er, að hún hækki vöruverð á sama tíma og hún minnkar ráðstöfunartekjur heimilanna. Bankarnir ætla sér að græða einir.

Í alvöruþjóðfélagi væru bankastjórar settir í gæzluvarðhald fyrir samráð af þessu tagi og síðan dæmdir á Hraunið lögum samkvæmt. Hér virðast lög og reglur um samkeppnishömlur, samráð og fáokun ekki ná til banka og bankastjóra, þótt hegðun þeirra fari ekki leynt.

Ef bankar telja debetkort af hinu góða, geta þeir farið dönsku leiðina og haft kortin ókeypis og veltu þeirra skattfrjálsa, bæði fyrir neytendur og kaupmenn. Ef þeir fara ekki þá leið, er það ekki vegna eðlis kortanna, heldur af því að þeir eru að nota tækifærið til að okra.

Bankarnir eru dýrir í rekstri, mun dýrari en bankar í nágrannaríkjunum. Íslenzku bankarnir hafa hingað til fjármagnað mismuninn með óhæfilega miklu bili milli innvaxta og útvaxta. Vaxtabilið sætir vaxandi gagnrýni, svo að bankarnir eru að leita annarra leiða.

Vegna smæðar íslenzka markaðarins eru bankarnir of fáir til að myndazt geti eðlileg samkeppni, sem þrýsti niður rekstrarkostnaði þeirra. Þeir eru raunar svo fáir, að starf þeirra markast fremur af samráðum en samkeppni. Debetkortamálið er skólabókardæmi um þetta.

Til að bæta rekstur bankanna þarf að stöðva pólitískt val á fólki í bankaráð og bankastjórn og að setja í staðinn fólk, sem kann til verka. Jafnframt þarf að beita samkeppnislögum á þann hátt, að bankar komist ekki upp með samsæri á borð við framkvæmd debetkortanna.

Við eigum ekki að leyfa bönkunum að komast upp með að leysa hluta af fortíðarvanda sínum með því að ráðast að neytendum og kaupmönnum með korti og klóm.

Jónas Kristjánsson

DV