Með lagni og heppni.

Greinar

Með töluverðri lagni og engu minni heppni hefur ríkisstjórnin tryggt sér værðarfrið í sumar. Hún á aðeins einn þröskuld eftir, ákvörðun fiskverðs. Þar er ágreiningurinn um, hvar hækkunin skuli vera á bilinu 5%-8%. Og hefur það sézt svartara.

Sjómenn telja sig þurfa 8% fiskverðshækkun til að fá sömu verðbætur og landfólk. Útgerðarmenn telja sig þurfa sömu tölu. Frystihúsin eru hins vegar talin geta greitt að minnsta kosti 5% hærra fiskverð eftir atburði síðustu daga.

Boðuð hækkun frystra þorsk- og karfaflaka á Bandaríkjamarkaði kom eins og sending af himnum ofan í síðustu viku. Dótturfyrirtæki Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar þar vestra tilkynntu þessa hækkun sameiginlega.

Hækkunin er talin jafngilda 5% meðaltalshækkun á frystum fiski á Bandaríkjamarkaði. Ástæða er til að vona, að hún standist, því að verð á þessum vörum hefur ekki hækkað síðan í hittifyrra, þrátt fyrir nokkra verðbólgu þar vestra.

Þetta hefur gífurleg áhrif á svokallaða frystideild Verðjöfnunarsjóðs. Þessi deild er tæpast til nema á pappírnum, því að hún á engan eyri, aðeins botnlausar skuldir. Hún hefur að undanförnu verið notuð sem afgangsstærð í bókhaldi.

Fyrir atburði síðustu daga var búið að spá 75 milljón nýkróna tapi deildarinnar á þessu ári. Þetta mikla fé var hvergi til, né heldur nein einasta hugmynd um, hvernig mætti særa það úr galtómum ríkissjóði.

Með hækkuninni vestra var þetta áætlaða tap næstum því þurrkað út, minnkað niður í rúmar 5 milljónir nýkróna. Þar með var dæmið allt í einu orðið viðráðanlegt, með því bara að beita til viðbótar ofurlítilli gengislækkun.

Erlendur gjaldeyrir hækkaði um 4% um helgina. Sú gengislækkun mundi rúmlega duga til að leysa afgang vandamálsins, ef ekki þyrfti nú að semja um nýtt og hærra fiskverð. Gengislækkunin dugar ekki alveg til 8% hækkunar fiskverðs.

Ríkisstjórnin taldi sig ekki geta farið grófar í gengislækkun til að spilla ekki áformum sínum um 8-9% vísitölubólgu á næstu þremur mánuðum. Hún gat ekki farið hærra til að standa við markmið 40% vísitölubólgu yfir árið.

Rétt er að geta þess, að vísitölubólga er ekki alveg það sama og verðbólga. Vísitölubólgan hefur á undanförnum árum reynzt heldur minni vegna vel heppnaðrar viðleitni stjórnvalda til að hnika mæliskalanum til, falsa vísitöluna.

Fiskseljendur og fiskkaupendur glíma nú við bilið milli 5% og 8%. Útkoman verður eins og svo oft áður, að einhver málsaðila bítur í súrara epli en hinir. Það mætti jafnvel sparka í hinn ágætlega ímyndaða verðjöfnunarsjóð rétt einu sinni.

Útkoma þessa máls mun ekki raska ró ríkisstjórnarinnar. Allur rekstur mun ganga sinn vanagang í sumar og fram á haust. Meira að segja langsveltur iðnaðurinn fagnar molum sínum af náðarborði gengislækkunarinnar.

Ríkisstjórnin telur sig nú vera vel undir haustið búna. Hún ætlar sér að benda á í september, að vísitölubólga ársins verði ekki nema tveir þriðju hlutar bólgu síðustu ára, ef enginn fari þá að spilla málinu.

Kjarasamningar vetrarins munu svo verða háðir við þær aðstæður, að menn geta tæpast neitað ríkisstjórninni um að ná síðasta fjórðungi þessa árangurs, sem hún verður þá staðfastlega búin að standa við þrjá fjórðu hluta ársins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið