Ég hló að myndinni af íslenzku sendiherrafjölskyldunni með trúnaðarbréfið í Páfagarði. Þarna stóðu þau, slæðuklædd konan og börnin eins og stóreygir túristar, aðframkomin af nálægð við almætti Papa Ratzi. Hvar voru afinn og frænkan? Þetta er næsti bær við París Hilton og tækifærið kemur ekki aftur. Myndin sýnir firringu utanríkisþjónustunnar, sem lét útrás íslenzkrar kaupsýslu fram hjá sér fara. Sendiráð um víðan völl eru eins konar menúett, stiginn um flottræfilshátt nokkurra embættismanna og aflóga pólitíkusa. 200 trúnaðarbréf kosta morð fjár og koma þjóðinni ekki að nokkru minnsta gagni.