Þjóðarleiðtoginn með pípuhattinn hefur verið neyddur til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um eins flokks kerfið, sem lengi hefur verið við lýði í Malaví. Hér á landi er þessi þjóðarleiðtogi betur þekktur sem Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna að áliti utanríkisráðherra Íslands.
Hjá Ngwazi Hastings Banda fer þjóðaratkvæðagreiðslan fram á þann hátt, að kjörkassar eru tveir, annar fyrir seðla með eins flokks kerfinu og hinn fyrir seðla á móti því. Eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir þessa tilhögun.
Kjörkassarnir eru sagðir eiga að vera inni í kjörklefunum. En bófaflokkar Bandas eru þegar farnir að hóta fólki því, að þeir geti séð það og ljósmyndað, ef það stingi atkvæðaseðli sínum í kjörkassa mótatkvæðanna. Fólk þorir því ekki að kjósa á móti skjólstæðingi Íslands.
Erlendis er Banda einkum þekktur fyrir að vera svo langt út af korti mannréttinda, að einungis einn vestrænn stjórnmálamaður hafi virt að vettugi bann hins siðaða heims við heimsóknum valdamanna til Malavís. Það er utanríkisráðherra Íslands, er var þar í febrúar.
Maðurinn með pípuhattinn hefur sett lög um, að þriðjungur Malavíbúa fái ekki að kjósa. Það eru þeir, sem eru 18-21 árs að aldri. Sú athyglisverða undantekning er á þessari reglu, að þeir mega kjósa, ef þeir eru félagar í ungliðahreyfingu einræðisflokks Bandas.
Af því að utanríkisráðuneyti Íslands fylgist mjög lítið með erlendum fréttum, varð það fyrir þeirri ógæfu að senda utanríkisráðherra með fríðu föruneyti í mikla reisu í febrúar til Malavís til að afhenda formlega tvo báta, sem Íslendingar hafa gefið glæpaflokki Bandas.
Vestræn ríki eru hætt að senda aðstoð til Malavís, af því að það er í flokki ríkja, sem mest þurfa á nýju stjórnarfari að halda. Hafi verið um að ræða leifar eldri loforða um aðstoð, hefur afhendingin farið fram í kyrrþey, svo að Banda fái ekki að baða sig í sviðsljósinu.
Maðurinn með pípuhattinn setti nýlega lög um, að bófaflokkar hans væru friðhelgir fyrir kærumálum vegna ofbeldis gegn stjórnarandstæðingum. Í kjölfarið hefur byrjað óöld mannrána, pyndinga og morða á vegum rauðskyrtunga stjórnarflokks Ngwazi Hastings Bandas.
Utanríkisráðherra Íslands er nokkuð sama um, hvaða málstað hann hefur að verja og hefur raunar gaman af að hafa hann sem erfiðastan. Hann telur sig færan í flestan sjó og nýtur þess að ögra því sem eftir er af stjórnmálaflokki þeim, er studdi hann til áhrifa á Íslandi.
Þess vegna hætti Jón Baldvin Hannibalsson ekki við sneypuför sína og Þrastar Ólafssonar til Malavís í vetur, þegar upp komst um fáfræði ráðuneytisins, heldur fullyrti, að maðurinn með pípuhattinn væri hinn merkasti maður og nánast Jónas frá Hriflu þeirra Afríkumanna.
Enginn annar utanríkisráðherra á Vesturlöndum né nokkurt vestrænt utanríkisráðuneyti hefur hliðstæða skoðun á þessum geðveika og miskunnarlausa einræðisherra, sem oft er notaður sem skrípamynd af þeirri álfu, er alið hefur af sér Idi Amin og Mobutu Sese Seko.
Frá endalokum kalda stríðsins hafa Vesturlönd reynt að koma frá þessum Jónasi frá Hriflu, enda eru menn sammála um, að hann sé hataður af öllum þorra manna í Malaví. Efnahagsaðstoð hefur verið stöðvuð til að þrýsta á brottför einræðisherrans og innleiðingu lýðræðis.
Erlendis er hlegið að heimsku ráðuneytis og hroka ráðherra á Íslandi, þar sem ferðahvetjandi ráðherralaun leiða til stuðnings við manninn með pípuhattinn.
Jónas Kristjánsson
DV