Biskupinn yfir Íslandi hefur gert töffara að talsmanni sínum í málum þeim, sem hafa brunnið á honum að undanförnu. Talsmaðurinn hefur gengið hart fram í að mála fyrir fólki afleiðingar af mótþróa við biskupinn, svo sem kostnað þess af hugsanlegum málaferlum biskups.
Talsmaðurinn hefur aflað sér bréfa, sem endurspegla gamlan systkinaágreining; fengið eina af konunum þremur til að draga kæru sína til baka, en ekki lýsingu hennar á málsatvikum; og fengið sóknarnefndarformann og organista til að brjóta trúnað á presti sínum.
Venjulegir talsmenn úr hefðbundinni stétt kynningarfulltrúa hefðu farið mýkri leiðir og meira hugsað um langtímaáhrif aðgerða sinna á almenningsálitið. Talsmanna-, ímyndar- og spunafræði er sérstakt og erfitt fag og er raunar allt annað fag en lögfræði töffarans.
Komið hefur fram, að talsmaðurinn telur málið hafa verið komið í svo slæma stöðu, að hann hafi ekki átt annars kost en að taka að sér hlutverk fréttafulltrúa. En aðferðir hans eru þær, að erfitt er að sjá annað en að þær skaði stöðu þjóðkirkjunnar í þjóðfélaginu.
Faxahríð hans úr Biskupsstofu til fjölmiðla hefur meðal annars þær afleiðingar, að erfiðara en áður verður fyrir fólk að leita til presta í trúnaði, þegar það sér, að Biskupsstofa brýtur þessa nafnleynd í örvæntingu. Þetta dregur úr trausti fólks á þjóðkirkjunni yfirleitt.
Mál biskups stendur þannig, að þrjár konur saka hann um óviðeigandi athæfi. Ein þeirra hefur dregið kæru sína til baka, en ekki lýsingu sína á málsatvikum. Fréttaflutningur fjölmiðla af gangi þessara mála um stofnanir kirkjunnar fela ekki sér neina dómsúrskurði fjölmiðla.
Ekki hefur verið auðvelt fyrir biskup að meta, hvernig hann eigi að mæta hremmingum af þessu tagi. Ein leiðin hefði verið að einangra málið við sig persónulega til að hlífa þjóðkirkjunni við afleiðingum af brostnu trausti milli hans og umtalsverðs hluta þjóðarinnar.
En biskup valdi þá leið, sem nú er komin í ljós. Sú leið felur í sér, að vandamál hans verða um leið að hremmingum þjóðkirkjunnar. Það gerir honum kleift að sitja sem fastast og bíða eftir að veður sloti, en veldur því um leið, að sár kirkjunnar gróa verr en ella.
Óneitanlega er sérkennilegt að fylgjast með talsmanni, sem hamast á faxinu eins og hann sé verjandi landskunnra afreksmanna í skuggalegum viðskiptum. Vinnubrögðin gagnast töffurum í lögmannastétt á mörgum sviðum, en klæða biskupsembættið ekki vel.
Með þessum aðferðum verður líklega unnt að koma málunum í pattstöðu, þar sem klögumálin ganga á víxl og enda úti í mýri. Það er árangur út af fyrir sig, þótt biskup og talsmaður hans hafi í leiðinni fórnað svo sem einum sóknarnefndarformanni og einum organista.
Vandamál biskups felast í, að mikill hluti þjóðarinnar tekur ekki orð hans eins trúanleg og kvennanna þriggja. Um daginn voru um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar á þessari skoðun. Þessi hópur kann að minnka niður í minnihluta, en verður áfram afar fjölmennur.
Prófastar hafa á fundi dómtekið mál biskups og úrskurðað hann saklausan af áburði. Þar með ætti málinu að vera lokið á vegum þjóðkirkjunnar og á þann hátt, að þjóðkirkjan tekur það á bakið, svo sem stefnt hefur verið að af hálfu biskups og talsmanns hans.
Þegar rykið hefur setzt, situr eftir öflug áminning um, að þjóðin þarf að losna undan ábyrgð á þjóðkirkjunni, svo að hvor aðili um sig geti siglt sína leið.
Jónas Kristjánsson
DV