Meðferð tóbaksfíknar

Greinar

Við höfum, eins og ýmsar aðrar vestrænar þjóðir, náð nokkrum árangri í að minnka notkun tóbaks. Sérstaklega er ánægjulegt, að meðal skólabarna fer þeim sífellt fækkandi, sem reykja. Þetta bendir til, að fræðsla um skaðsemi tóbaksreykinga hafi haft töluverð áhrif.

Liðin eru 35 ár síðan fyrst kom í ljós í vísindalegri rannsókn í Bandaríkjunum, að tóbak væri eitur. Síðan hafa niðurstöðurnar verið staðfestar mörg hundruð sinnum, svo að langt er síðan efasemdir voru kveðnar í kútinn. Raunar fer syndaskrá tóbaks ört vaxandi.

Skaðsemi tóbaks er ekki bundin við lungnakrabbamein eitt, svo sem menn héldu í fyrstu. Komið hefur í ljós, að tóbak veldur einnig banvænum hjartasjúkdómum og ýmsum öðrum óþægindum. Að öllu samanlögðu er tóbak mesti manndráparinn á Vesturlöndum.

Í Bretlandi og Bandaríkjunum er talið, að tóbak drepi tíu sinnum fleira fólk en áfengi, sem er það fíkniefni, er næst gengur tóbaki í framleiðslu banvænna vandamála. Í Bandaríkjunum er talið, að sjö sinnum fleira fólk látist af notkun tóbaks en í umferðarslysum.

Þótt tóbak sé tíu sinnum banvænna en áfengi, fer minna fyrir tilraunum yfirvalda til að draga úr neyzlu tóbaks. Það er fíkniefnið, sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera selt fullorðnu fólki án lyfseðils í annarri hverri verzlun. Segja má, að sölu tóbaks séu lítil takmörk sett.

Fræðslan ein skiptir þó miklu máli, því að hér á landi þarf hún ekki að berjast við auglýsingar á tóbaki, sem tröllríða fjölmiðlum í mörgum öðrum löndum. Í þeim auglýsingum er reynt að búa til útilífs-ímynd reykingamannsins sem hestamanns við varðeld í villiskógum.

Enn meiri áhrif hafa ákvarðanir, sem þrengja kosti reykingamanna á almannafæri. Reykingar eru bannaðar í almenningsvögnum og í þjónustudeildum opinberra fyrirtækja, svo að dæmi séu nefnd. Reykingafólk sætir sífellt auknum takmörkunum á reykingafrelsi sínu.

Að baki viðleitninnar eru nýlegar upplýsingar um, að reykingar séu ekki bara skaðlegar þeim sem reykja, heldur líka hinum, er ekki reykja, en anda að sér sama lofti. Það eru kallaðar óbeinar reykingar, sem eru skaðlegar, þótt þær séu ekki eins banvænar og hinar beinu.

Þar með er komið að lýðræðisreglunni um, að frelsi eins endar, þar sem nef hins byrjar. Þess vegna er reykleysisréttur þeirra, sem ekki reykja, æðri en reykingaréttur hinna. Þess vegna er með lögum og reglum verið að ýta reykingum af almannafæri inn í sérstök herbergi.

Þróunin er komin svo langt á veg, að beina þarf athyglinni í vaxandi mæli að fólki, sem vill hætta að reykja, en hefur ekki getað það, af því að notkun tóbaks er afar brýn fíkn, sem lætur ekki að sér hæða. Margt fólk hefur ótal sinnum reynt að hætta, en án árangurs.

Kanna þarf til dæmis, hvort árangurs sé að vænta af aðferðum, sem væru hliðstæðar þeim, er hafa reynzt ótrúlega árangursríkar við meðferð fíknar í áfengi, ekki sízt hér á landi. Þær aðferðir hafa þegar verið teknar upp við meðferð fíknar í eiturefni, róandi lyf og svefnlyf.

Sjúkrahús landsins eru full af dýrum sjúklingum, sem ekki væru þar, ef þeir hefðu ekki reykt. Þjóðfélagið gæti sparað stórfé á fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem ódýrri tóbaksmeðferð, er gæti komið í veg fyrir, að fólk legðist á dýr sjúkrahús af völdum tóbaksreykinga.

Margt tóbaksfólk flýr á náðir skottulækninga til að losna undan tóbaksfíkninni. Betra væri, að hin opinbera heilsugæzla tæki frumkvæði í að hjálpa þessu fólki.

Jónas Kristjánsson

DV