Meðvitundarleysi

Greinar

Skiljanlegt er, að stórskuldugt fólk og forráðamenn stórskuldugra fyrirtækja hafi ánægju af vaxtalækkuninni, sem ríkisstjórnin bjó til með handafli einu saman. Skiljanlegt er, að eina spurning þeirra sé, hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki fyrr beitt þessu handafli sínu.

Enn frekar er skiljanlegt, að stjórnarandstaðan og aðilar vinnumarkaðarins lofi vaxtalækkunina. Hún er í stíl við stjórnarathafnir fyrri ríkisstjórna og þær sjónhverfingar, sem áratugum saman hafa einkennt kjarasamninga og aðrar gerðir pólitísku aflanna í landinu.

Athyglisverðara er, að sérfræðingar í efnahagsmálum og skyldum greinum hafa undantekningarlítið hrósað handaflinu, ef þeir hafa á annað borð lýst skoðun sinni. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, sem hafa bent á augljósa sjónhverfingu málsins og hættur þess.

Handaflið gæti fylgt markaðslögmálunum, ef ríkisstjórnin treysti sér til að sæta því fjármagni, sem hún nær að útvega ríkissjóði á nýjum og lægri vöxtum. Ef hún gæti það, væri eingöngu um að ræða flutning á fjármagni frá eigendum þess yfir til skuldunauta þeirra.

Það er hins vegar fyrirfram vitað, að hún getur það ekki. Enda kemur fram í yfirlýsingu hennar, að hún hyggst bæta sér upp minnkað peningaframboð á innlendum markaði með því að taka aukin lán í útlöndum. Hún telur, að markaðslögmálin láti ekki að sér hæða.

Það gerist á þann hátt, að margir innlendir fjármagnseigendur reyna að verja fjármagnstekjur sínar með því að færa sig til á lánamarkaði og leita uppi peningahungraða aðila, sem fylgja ríkisstjórninni ekki alla leið í vaxtalækkun eða sætta sig jafnvel við fyrra vaxtastig.

Smám saman verður tilfærsla á peningamarkaðnum. Peningar renna í auknum mæli til þeirra sem minnst eða ekki lækka vexti, en þurrð kemur fram í fjárstreymi til ríkisins og annarra aðila, sem bjóða tveimur prósentustigum lægri vexti en voru fyrir tíð handaflsins.

Ríkisstjórnin veit, að þetta muni gerast og þess vegna er hún þegar farin að undirbúa auknar lántökur í útlöndum. Afleiðingin mun koma fram í auknum skuldum þjóðarinnar. Greiðslubyrði erlendra lána, sem var 20% af útflutningsframleiðslu árið 1990, fer í 40% árið 1995.

Til skamms tíma fóru tveir af hverjum tíu þorskum í að standa undir skuldum þjóðarinnar við útlönd. Eftir rúmt ár munu fjórir af hverjum tíu þorskum fara í að reka þessar skuldir. Þetta er sú leið í efnahagsmálum, sem leitt hefur Færeyinga fram af hengifluginu.

Í sumum tilvikum er í lagi að auka skuldir sínar. En aðstæður eru þær hér á landi, að skuldasöfnun gagnvart útlöndum var komin upp fyrir hættumörk, áður en ríkisstjórnin greip til hins vinsæla handafls. Einmitt þess vegna er handaflið hættulegt við núverandi aðstæður.

Ríkisstjórnin gæti forðast þessar skuggahliðar með því að neita sér um aukin lán í útlöndum og lækka í staðinn fjárhagsáætlanir sínar um nokkra milljarða með því að draga úr einokun landbúnaðarins, sem kostar þjóðfélagið frá 15 og upp í 20 milljarða króna á hverju ári.

Merkilegast er, að þeir, sem eiga að vita betur vegna menntunar sinnar eða reynslu, láta eins og ekkert sé. Þeir tala blíðum rómi um skammtímaáhrif á vexti og atvinnuástand, en forðast eins og heitan eldinn að minnast á langtímaáhrifin, færeysku leiðina í efnahagsmálum.

Þögnin um afleiðingar aðgerða ríkisstjórnarinnar sýnir, að hagfræðileg meðvitund er skammt á veg komin hér á landi og að það gildir jafnt um lærða sem leika.

Jónas Kristjánsson

DV