Meiri kjarni og minna hismi

Greinar

Auglýsingastríð kosningabaráttunnar fer seint og hægt af stað. Framsóknarflokkurinn þjófstartaði með hrinu um efndir fyrri kosningaloforða. Herferðin fór fyrir lítið, því að upp komst að forsendurnar voru falsaðar. Flokkurinn hafði breytt orðalagi gömlu loforðanna.

Samfylkingin auglýsti, að frambjóðendur hennar væru góðir við börnin sín, sem sjálfsagt er fróðlegt, en kemur engum á óvart. Græna vinstrið hefur birt eina auglýsingu um röð fræðslufunda í umhverfismálum, svokallaða Græna smiðju, sem minnir á gömlu leshringina.

Sjálfstæðisflokkurinn er í gömlum og grónum siðum eins og Græna vinstrið og birtir hefðbundnar auglýsingar um röð funda, þar sem fundarefnið er það, sem flokkurinn leggur helzt til kosningabaráttunnar, Davíð Oddsson. Samt eru bara rúmar þrjár vikur til kosninga.

Framsóknarflokkurinn er byrjaður á nýjum pakka af gaspri fyrir fávita. Í þetta sinn felst innihaldið í kosningaloforðum, þar sem Framsóknarflokkur næstu ríkisstjórnar lofar hátíðlega og lið fyrir lið að bæta fyrir brot Framsóknarflokksins í núverandi ríkisstjórn.

Samkvæmt kenningunni um, að heimur versnandi fari, ætti Framsóknarflokkurinn að vera að moka inn fylgi út á mikil loforð og mikið hismi í kosningabaráttunni. Kannanir sýna hins vegar, að enginn flokkur á við meira fylgistap að stríða en Framsóknarflokkurinn.

Kannski er ekki allt fengið með ímyndunarfræðingum og umbúðum. Ef til vill gagnast bezt að fara gömlu leiðirnar, senda mönnum stefnuskrár í pósti og auglýsa fundi um menn og fræðslu um málefni. Að minnsta kosti virðast ekki allir vera dottnir í poppað hismið.

Ýmislegt á eftir að gerast á næstu þremur vikum. Óhjákvæmilegt er, að flokkarnir fari að herða róður og auka brambolt. Sú lýsing, sem hér að ofan hefur verið gefin af upphafi baráttunnar, þarf ekki að vera rétt lýsing á baráttunni allri, þegar upp er staðið.

Athyglisvert er, að kosningabaráttan er sýnilegri í efnisvali fjölmiðlanna en í auglýsingunum. Á vegum fjölmiðla eru haldnir kosningafundir í ljósvakanum og birtar greinar um einstök kjördæmi, viðtöl við oddamenn framboðslista og sagt frá stefnumálum.

Allt þetta efni fjölmiðlanna er undantekningarlaust undir óhlutdrægri ritstjórn og reynir að gera öllum jafnhátt undir höfði. Það hjálpar kjósendum meira en auglýsingaefnið, sem sumpart kastar raunar ryki í augu þeirra. Lýðræðið virkar í fjölmiðlunum árið 1999.

Hér í blaðinu höfum við fylgzt með ferðum frambjóðenda og munum gera það áfram næstu vikur. Í dag hefst úttekt á baráttu í einstökum kjördæmum með efni um Reykjanes og Norðurland eystra. Bein lína með oddamönnum flokkanna hefst viku síðar í blaðinu.

Eigin umfjöllun fjölmiðlanna um kosningarnar veitir auglýsingum stjórnmálaflokkanna aðhald. Erfitt er fyrir stjórnmálaflokka að halda úti skipulögðum blekkingum, sem stinga í stúf við heiðarlega efnismeðferð. Þannig stungu fjölmiðlar gat á sögufölsun Framsóknar.

Ýmis teikn er um, að hefðbundnar kosningabombur ráðherra springi illa og jafnvel í höndum þeirra sjálfra. Margir kjósendur eru ekki ekki vitlausari en svo, að þeir sjá gegnum einkennilega tímasett upphlaup ráðherra, til dæmis í heilbrigðismálum og fiskveiðisamningum.

Við getum raunar mælt eftir hlutfalli kjarna og hismis, málefna og blekkinga í kosningabaráttunni, hvort þjóðinni hefur miðað fram eftir vegi í þroska.

Jónas Kristjánsson

DV