Meirihlutavíxl eru möguleg.

Greinar

Landsmenn hafa enn sem komið er tæplega tekið eftir, að sveitarstjórnakosningar eru á næsta leiti. Að minnsta kosti eru Reykvíkingar lítið farnir að hugsa um þessar kosningar, svo sem kemur fram í skoðanakönnun DV í dag.

Þetta kemur heim og saman við upplýsingar frá vinnustaðafundum frambjóðenda. Þar hafa menn lítinn áhuga á að ræða borgarmál við frambjóðendur, en þeim mun meiri áhuga á landsmálunum. Samt er ekki nema mánuður til kosninga.

Þegar rúmlega helmingur hinna spurðu segist vera óákveðinn í afstöðu til framboðslista eða svarar ekki af öðrum ástæðum, er greinilegt, að áhugaleysið er gífurlegt, miklu meira en áður hefur mælzt í skoðanakönnunum.

Sumpart getur þetta stafað af landsmálahörku undanfarinna vikna, sem hefur skyggt á hin tiltölulega friðsamlegu sveitarstjórnamál. Hvert upphlaupið hefur rekið annað, Helguvík, álverið, Blanda, steinull og skyldusparnaður.

Búast má við, að landsmálin yfirgnæfi sveitarstjórnamál í tvær eða þrjár vikur til viðbótar, meðan alþingismenn taka endasprettinn við afgreiðslu allra nauðsynlegustu mála, í tímahraki, sem er meira en nokkru sinni fyrr.

Ef hér er rétt til getið, hafa sveitarstjórnamenn ekki nema tvær eða þrjár vikur til að beina athygli landsmanna að kosningunum, sem verða 22. maí. Þær vikur verða örlagaríkar, er hinir óákveðnu fara að gera upp hug sinn.

Áhugaleysið um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík getur þó einnig stafað sumpart af hinum óljósu línum milli flokka og milli fyrrverandi og núverandi meirihluta. Kjósendur eiga vafalaust erfitt með að finna mun.

Hugsanlegt er, að þetta komi í könnuninni harðar niður á meirihlutaflokkunum en Sjálfstæðisflokknum á þann hátt, að sumir hinna óákveðnu ætli að kjósa einhvern meirihlutaflokkinn, en viti ekki enn, hver þeirra verði fyrir valinu.

Með þessum fyrirvörum er þó óhjákvæmilegt að vekja athygli á mjög traustri útkomu Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnuninni. Hann fékk síðast 47,4% atkvæða, en fær nú 31,5% allra hinna spurðu og 66% þeirra, sem skoðun hafa.

Gera má ráð fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi von í hluta af fylgi hinna óákveðnu. Þannig bendir könnunin til, að flokkurinn eigi raunverulega möguleika á að endurheimta meirihluta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Önnur athyglisverð niðurstaða skoðanakönnunarinnar er, að framboð kvenna hefur skotið rótum. Sá listi fékk jafngóða útkomu og Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn og mun betri útkomu en lánlítill Framsóknarflokkurinn.

Horfur eru því á, að framboð kvenna ónýtist ekki á þann hátt, að atkvæðin falli dauð. Listi þeirra er jafnlíklegur til að koma manni eða mönnum að eins og sumir aðrir listar. En glæstur sigur er ekki í mynd könnunarinnar.

Af meirihlutaflokkunum er það Alþýðubandalagið, sem fær alvarlegustu viðvörunina í könnuninni. Það fékk 29,8%% atkvæða í síðustu kosningum, en í þessari könnun aðeins 4,8% hinna spurðu og 10,1% þeirra, sem afstöðu tóku.

Kosningabaráttan er tæplega hafin og margt á eftir að gerast fram að kjördegi. Vonandi getur DV í síðari könnun komizt nær hinum raunverulegu úrslitum. Þá verða fleiri búnir að ákveða sig og sú viðbót ætti að sýna straumana.

Jónas Kristjánsson

DV