Eftir aldamót hafa skilin dofnað milli ritstjórnarefnis og auglýsinga. Kostun fór að tíðkast í sjónvarpsþáttum, svo og staðsetningar söluvöru í sjónvarpssal. Hafin er bein sala á ritstjórnarefni, svokallað plögg, samanber auglýsingu MS á Stöð 2. Í framhaldinu er þar boðað aukið plögg. Í Fréttablaðinu er miðja blaðs oftast lögð undir efni með einhliða áróðri fyrir vöru og þjónustu. Til dæmis er þar stöðugt lof um alls kyns kínalífselixíra, fæðubótarefni og galdrakrem. Allt stríðir þetta gegn fyrri verklagsreglum í blaðamennsku. Við erum á hraðri leið til ástands, þar sem efni fjölmiðla felst aðallega í illa dulbúnum auglýsingum.