Menn kjósa skaffara

Greinar

Þrátt fyrir eindregna andstöðu Spánverja við stríðið gegn Írak, voru þeir til skamms tíma reiðubúnir að styðja ríkisstjórnina í þingkosningunum. Stuðningurinn hrundi ekki strax eftir hryðjuverkið í Madrid. Hann hrundi fyrst, þegar kjósendur áttuðu sig á, að stjórnin misnotaði hryðjuverkið.

Spænska ríkisstjórnin hélt til streitu, að skilnaðarmenn Baska bæru ábyrgðina, þótt gögn bentu til aðildar Al Kaída. Hún spann lygasögur og fékk meira að segja öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að verða sér til skammar með því að fordæma aðskilnaðarmenn Baska fyrir hryðjuverkið.

Spænskir kjósendur vildu lengst af styðja stjórnina af því að þeir töldu hana skaffa. Þar og hér eru atvinnumál flestum hjartfólgnari en utanríkismál. Hryðjuverkið kom síðan mönnum í uppnám, en þeir urðu ekki alvarlega reiðir fyrr en þeir töldu ríkisstjórnina vera að hafa kjósendur að fífli.

Verðandi forsætisráðherra Spánar skefur ekki utan af stefnubreytingunni við stjórnarskiptin. Hann segir árásina á Írak hafa verið stórslys og hernám Íraks hafi haldið áfram að vera stórslys. Hann segir, að félagarnir Bush og Blair hafi farið í stríð og sprengt fólk á forsendum þvættings.

Til skamms tíma er þetta að sjálfsögðu verulegt áfall fyrir Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Bretlands. Þeir eru stimplaðir lygarar, sem hafi valdið stórslysi. Einkum er þetta Tony Blair erfitt, því að hann talinn vera krati eins og Jose Rodriguez Zapatero, þótt í raun sé hann það ekki.

Hinn nýi forsætisráðherra Spánar segir brýnast að efla sambandið við Frakkland og Þýzkaland, einmitt þau ríki, sem harðast voru andvíg Íraksstríðinu. Þá hefur Romano Prodi, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, notað tækifærið til að hafna ofbeldislausnum Bandaríkjanna á heimsvandamálunum.

Líklegt má telja, að fasistarnir Silvio Berlusconi á Ítalíu og Anders Fogh Rasmussen í Danmörku falli í næstu þingkosningum. Að öðru leyti stendur bandalag hinna stríðsfúsu. Blair er ekki á útleið og ríkisstjórn Póllands er áfram eindregin í stuðningi við bandaríska heimsveldið.

Ekki má gleyma, að kanzlari Þýzkalands, Gerhard Schröder, einn helzti andstæðingur stríðsstefnunnar, stendur höllum fæti heima fyrir. Það er ekki vegna utanríkisstefnunnar, sem fylgir þjóðarviljanum, heldur vegna þess að hann er ekki talinn hafa skaffað nógu vel í atvinnumálum landsins.

Í öllum þessum löndum vegur atvinna oftast þyngra en stríð og friður. Hér er það vinnan á Vellinum, sem réð því, að Davíð og Halldór studdu stríð, sem kostaði 10.000 saklaus mannslíf. Ef Bush fellur í haust, verður það ekki vegna stríðsins, heldur af því að hann skaffar ekki nógu vel.

Jónas Kristjánsson

DV