Mestur mannauður

Greinar

Okkur hefur gengið vel á undanförnum árum, raunar betur en flestum öðum þjóðum, sem við berum okkur saman við. Samkeppnishæfni þjóðarinnar hefur aukizt í samanburði við aðrar þjóðir. Við höfum á tveimur árum hækkað úr 19. sæti í 10. á heimslistanum.

Við erum aftur komin í flokk með þjóðum Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem við viljum vera. Velgengni okkar hlýtur að vekja nokkra athygli og draga að okkur suma þá, sem vilja fjárfesta í mannauði og traustum innviðum rekstrarumhverfis.

Þetta eru þau atriði, sem valda mestu um góða stöðu okkar á heimslista Alþjóðastofnunar stjórnunarþróunar. Raunar erum við í efsta sæti listans í mannauði og hefur oft verið ástæða til að fagna af minna tilefni. Þetta er bezta auglýsingin, sem þjóðin getur fengið.

Hagnýtar rannsóknir hafa eflzt í atvinnulífinu, en grundvallarrannsóknir hafa setið á hakanum í samanburði við aðrar þjóðir, einkum vegna fjárskorts rannsóknastofnana á vegum ríkisins. Með því að leiðrétta þetta getum við tryggt stöðu okkar betur.

Þótt margt hafi batnað hjá okkur, eru enn til atriði, sem draga okkur niður í fjölþjóðlegum samanburði. Alþjóðavæðing atvinnulífsins er enn á lágu stigi, styrkleiki hagkerfisins ekki nógu mikill og stjórnun fyrirtækja er síður en svo nógu góð hér á landi.

Stjórnvöldum ber að gæta þess af alefli að hleypa verðbólgunni ekki aftur lausri. Á síðasta ári byrjaði sá draugur að láta á sér kræla á nýjan leik, en nýgerðir kjarasamningar ættu að geta vegið þungt á metaskálunum við að kveða gamla óvininn niður aftur.

Stjórnvöld þurfa einnig að greiða fyrir innkomu erlendra fyrirtækja í þeim geirum atvinnulífsins, þar sem samkeppni hefur breytzt í fákeppni og síðan í fáokun. Við höfum séð þessa óheillaþróun í bönkum, í flugi, í benzíni, í tryggingum og í neyzluvöru.

Hræringar í millilandaflugi eru jákvæð merki. Samvinnuferðir-Landsýn hafa tekið upp samkeppni og á leiðinni er brezkt lággjalda-flugfélag. Mikilvægt er, að innviðum laga og stjórnsýslu sé hagað á þann hátt, að það auðveldi innkomu nýrra fyrirtækja á markað.

Við verðum aldrei varanlega samkeppnishæf við samanburðarþjóðir fyrr en við höfum búið til trausta innviði og ramma fyrir alþjóðlega samkeppni á íslenzkum heimamarkaði. Erlend fyrirtæki flytja okkur aukna þekkingu og efla mannauðinn í landinu.

Jafn brýnt er, að íslenzk fyrirtæki haldi áfram að hasla sér völl í útlöndum eins og þau hafa verið að gera, þótt sums staðar hafi illa gengið. Ef íslenzk stjórnun verður ekki samkeppnishæf í fjölþjóðlegum samanburði, verður góð staða okkar ekki varanleg.

Eðlilegt er, að menn misstígi sig í fyrstu tilraunum til að starfa í erlendu rekstrarumhverfi. Smám saman byggist upp þekking og reynsla, sem gerir þessi skref markvissari og traustari. Raunar byggjum við á gamalli og góðri reynslu í fiskréttaverksmiðjum.

Við eigum í senn að stefna að miklum ítökum íslenzkra aðila í erlendu atvinnulífi og miklum ítökum erlendra aðila í innlendu atvinnulífi. Við eigum að standa á krossgötum í vestrænu samfélagi kaupsýsluþjóða og líta til allra átta eftir tækifærum.

Við skulum opna allar gáttir viðskipta og framleiðslu og leyfa íslenzkum mannauði að magnast og njóta sín til hagsbóta fyrir landið og landsmenn alla.

Jónas Kristjánsson

DV