Styrkur MeToo hreyfingarinnar kom mér eins og sumum öðrum á óvart. Við höfum lifað miklar breytingar á samskiptum kynjanna á þessari öld, meira jafnvægi í pólitík og menntuðum stéttum. MeToo er þó mesta byltingin og mun gerbreyta þessum samskiptum. Hún verður mesta framför kvenna í sögunni. Hundruð og þúsundir kvenna hafa sagt frá óþægilegri og óbærilegri hegðun margra karla, sem ég kalla flagara. Hegðunin er miklu útbreiddari og óbærilegri en mér gat dottið í hug. Málið er svo þungvægt, að skipuleggja þarf kennslu í mannlegum samskiptum í skólum landsins. Setja þarf skýra línu milli daðurs og dólgsku, sem konur hafa lýst í átakanlegum sögum sínum.