Microsoft efldi einræði sitt á bandarískum hugbúnaðarmarkaði í fyrradag, þegar það samdi frið við AOL Time Warner, sem á Netscape, er lengi var helzti keppinautur Microsoft sem vafri á veraldarvefnum. Microsoft borgar AOL 750.000.000 dollara fyrir að hætta við lögsókn vegna einokunaraðgerða Microsoft. Þar að auki fær AOL að nota Microsoft hugbúnað gjaldfrítt í sjö ár. AOL verður nú hreint fjölmiðlafyrirtæki og hættir að þvælast fyrir Microsoft á sviði hugbúnaðar. Jafnframt hefur látið af störfum forstjóri AOL, Stephen Case, sem lengi hefur staðið uppi í hárinu á Bill Gates, forstjóra Microsoft, meðal annars með því að kaupa Netscape árið 1999. Steve Lohr og David D. Kirkpatrick segja frá þessu í New York Times.