Utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hafa haldið vel á stuðningi Íslands við málstað Lithaugalands og annarra Eystrasaltsríkja í þessari lotu ofbeldis Gorbatsjovs einræðisherra. Að mati Lithauga eru Íslendingar þeir bandamenn, sem hafa orðið þeim traustastir í vörninni.
Tvennt skyggir á. Hið fyrra er, að okkar menn skuli enn beita orðhengilshætti gegn kröfunni um, að Ísland viðurkenni nú Lithaugaland, Eistland og Lettland sem sjálfstæð og fullvalda ríki. Hið síðara er, að ekki skuli formlega komið á ræðismannaskiptum við þessi lönd.
Ef íslenzkir ráðherrar telja skipta máli að vitna í danskt skjal frá 1922, þar sem viðurkennt er sjálfstæði og fullveldi Lithaugalands og segja það gilda enn fyrir okkar hönd, er miklu nær að búa til alvöru íslenzkt skjal sama efnis á því ári, sem nú skiptir máli, 1991.
Þrátt fyrir þessa vankanta hafa viðbrögð íslenzkra stjórnvalda borið af viðbrögðum hliðstæðra aðila á Norðurlöndum og í Atlantshafsbandalaginu. Það eru íslenzk stjórnvöld, sem í báðum þessum fylkingum hafa reynt að draga aðra með sér í átt til réttlætis.
Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefur meira að segja bakað Gorbatsjov nokkurn vanda með því að leggja af stað til Lithaugalands á þessum örlagatíma. Það sýnir einræðisherranum, að horft er á glæpi hans þrátt fyrir athyglina, sem Persaflói fær.
Hér í blaðinu hefur á síðustu árum nokkrum sinnum verið lýst furðu á, að Vesturlönd og einkum þó Bandaríkin skuli hafa sett traust sitt á einræðisherra, sem hefur hvað eftir annað sýnt, að er sama marki brenndur og forverar hans í valdastólum í Sovétríkjunum.
Hér í blaðinu hefur það líka verið sett upp sem mælikvarði á, hvort ráðamenn væru siðmenningarmegin við strikið, að þeir treystu sér ekki til að láta skriðdreka brölta yfir fólk, sem þeir telja þegna sína. Gorbatsjov er sannanlega villimennskumegin við þetta strik.
Afturhvarf inn í miðaldamyrkur er einkenni Sovétstjórnarinnar um þessar mundir. Í opinberu menningarriti í Moskvu, Moldaya Gvardia, hefur verið varað við innflutningi eitraðra málma frá Íslandi, þar sem það sé liður í alþjóðlegu samsæri gegn Sovétríkjunum.
Gorbatsjov hefur hlaðið undir forstjóra leyniþjónustunnar, Vladimir Kryukov, sem nýlega stóð upp í sovézka þinginu til að vara við eitruðu gjafakorni frá Vesturlöndum og ýmsum slíkum tiltækjum, sem væru liður í hinu alþjóðlega samsæri gegn Sovétríkjunum.
Dmitri Jazov hermálaráðherra og Kryukov sögðu fyrir innrásina í Lithaugaland, að blóðsúthellingar yrðu hugsanlega nauðsynlegar til að verjast samsæri Vesturlanda gegn öryggi sovézka ríkisins. Þessir miðaldamenn eru orðnir aðalráðgjafar Gorbatsjovs einræðisherra.
Gorbatsjov hefur ekki stefnt að opnun í Sovétríkjunum hennar vegna. Hann hefur notað hana til að tefla umbótasinnum og afturhaldsmönnum fram og til baka í þeim tilgangi einum að safna sjálfum sér alræðisvaldi. Innrásin í Lithaugaland er ein afleiðingin.
Gorbatsjov notar tækifærið, er stjórn Bandaríkjanna telur sér henta að halda góðu sambandi við hann vegna stuðnings við málstað Sameinuðu þjóðanna í Persaflóa. Meðan Vesturlönd eru upptekin af vandamálum Kúvæt telur hann sig hafa betra svigrúm til valdbeitingar.
Íslenzk stjórnvöld hafa eftir megni reynt að fylla inn í tómarúm í afstöðu Vesturlanda til Eystrasaltsríkjanna. Við höfum fulla sæmd af þeirri viðleitni.
Jónas Kristjánsson
DV