Miðaldra ást án ávaxta

Greinar

“Mér hefur oft þótt þetta heldur marklaust,” sagði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra um starf Norðurlandaráðs í viðtali við DV í gær. Þessi skoðun er orðin almenn hér á landi og er að minnsta kosti orðin útbreidd einnig annars staðar á Norðurlöndum.

Vörnum fyrir ráðið er einkum haldið uppi af þeim, sem hafa hagsmuna að gæta sem þátttakendur í veizlum og ferðum. Þeir verja ráðið með tali um árangur, sem varð fyrir meira en þremur áratugum, svo og um Norræna húsið, sem orðið er nokkuð fullorðið líka.

Sífellt þrengist um raunveruleg verkefni Norðurlandaráðs. Á fundi þessarar viku var deilt um, hvort jólasveinninn ætti að vera grænlenzkur eða finnskur. Ennfremur er fræg 114 blaðsíðna skýrsla á vegum ráðsins um varðveizlu leðurhúsgagna. Ráðið drepur tímann.

Ellimörkin hafa ekki leitt til samdráttar í útgjöldum ráðsins. Þau hafa vaxið um 3% árlega umfram verð bólgu. Er nú svo komið, að á vegum ráðsins eru 74 stofnanir, 23 embættismannanefndir, 152 aðrar nefndir og 2000 verkefni, sum á borð við leðurhúsgögnin.

Lítið mark er tekið á því, sem kemur frá Norðurlandaráði og stofnunum þess. Ríkisstjórnir Norðurlanda stinga skjölum frá ráðinu yfirleitt beint ofan í skúffu. Utan Norðurlanda er gert grín að ráðinu, svo sem í brezka vikuritinu Economist, er tók út ráðið í fyrra.

Eftir að komið var á gagnkvæmum réttindum Norðurlandabúa að frumkvæði ráðsins fyrir nokkrum áratugum, hefur vaxtarbroddur framfaramála flutzt til stofnana á borð við Fríverzlunarsamtökin, sem starfa meira, þótt þar sé minna framleitt af ýmsum skjölum.

Á fundinum í Reykjavík í þessari viku hafa verið framleidd 300 þúsund ljósrit úr þremur tonnum af pappír. 100 milljónir hafa farið í ferðir og uppihald og svipuð upphæð í annan kostnað, svo sem tólf veizlur, þar af ein 900 manna, sem íslenzka ríkisstjórnin stóð fyrir.

Alls kostar Norðurlandaráð um 6,4 milljarða króna á ári, auk ýmiss kostnaðar, sem ríkissjóðir þurfa að bera. Afrakstur peninganna var sæmilegur fyrir nokkrum áratugum, en hefur orðið næsta lítill á síðustu árum. Ráðið er að verða lítið annað en fita, sem skera þarf.

Að vísu falla hér og þar peningar af borðum ráðsins til ýmissa menningarmála. Þess vegna hefur hópur þekktra Íslendinga mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga til slíkra mála. En góðverk ráðsins eru fremur lítilfjörleg í samanburði við allt umstang þess.

Eitt nýjasta afrek ráðsins var að dreifa auglýsingu um fund þess í öll hús á Reykjavíkursvæðinu. Bæklingurinn er fremur illa hannaður og segir ekki einu sinni, hvar fundurinn er haldinn. Prentun hans kostaði 200 þúsund krónur og dreifingin 550 þúsund krónur.

Af kostnaði ráðsins bera Íslendingar ekki nema 64 milljónir króna á ári. Það er út af fyrir sig vel sloppið, en nægir samt ekki sem afsökun fyrir lélegri nýtingu ráðsins á fjármagni sínu, ekki frekar en vel þegnir styrkir til menningarmála afsaka hina lélegu nýtingu.

Greinilegt er af fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík í þessari viku, að vonlaust er orðið, að ráðið finni sér gagnleg verkefni við hæfi umstangsins í veizlum og ferðum. Þess vegna er brýnt að taka tillit til ellimarkanna og fara að draga fjárhagsseglin saman frá ári til árs.

Eins og brezka fréttatímaritið Economist segir, minnir Norðurlandaráð á ástarsamband miðaldra fólks: ­ það getur verið innilegt, en ber ekki ávöxt.

Jónas Kristjánsson

DV