Miðjan heldur ekki

Greinar

Mikhail Gorbatsjov Sovétríkjaforseti er smám saman að komast að raun um, að miðjan heldur ekki í sovézkum stjórnmálum. Hann verður að velja og hafna. Hingað til hefur hann reynt að fljóta á lýðræðisöldunni, en hún hefur borið hann lengra en hann bjóst við.

Samþykkt miðstjórnar sovézka kommúnistaflokksins um afnám flokkseinræðis er einn stærsti hnykkurinn á þessari leið. Gorbatsjov er að reyna að hreinsa andstæðinga sína úr ríkisstjórn og flokki. Fyrstir til að fjúka verða harðlínumenn á borð við Jegor Ligatsjev.

Reikna má með fleiri fjöldafundum í stíl við 200.000 manna fundinn í Moskvu í þessari viku. Á fundunum verða höfð uppi áróðursspjöld til stuðnings Gorbatsjov og með lýðræðiskröfum. Jafnframt verður krafizt afsagnar Ligatsjevs og helztu stuðningsmanna hans.

Ef Gorbatsjov tekst að losna við Ligatsjev úr stjórnmálaráðinu og gera óvirka þá Vitalíj Vorotnikov, forseta rússneska lýðveldisins: Lev Zaikov hergagnastjóra, og Vladimir Ivashko frá Úkraínu, kemur röðin að hinni eiginlegu miðju, sem ráðið hefur efnahagsferðinni.

Gorbatsjov hefur hingað til ekki haft meirihluta í stofnunum flokksins með umbótum í efnahagsmálum. Tillögur skjólstæðings hans, Leonid Albakin, hafa verið felldar, en í staðinn verið samþykkt ýmiss konar málamiðlun frá Nikolai Ryzhkov forsætisráðherra.

Í stjórnmálaráðinu hefur Ryzhkov skipað miðjuna með Júríj Maslyukov áætlanastjóra og Nikolai Slyunkov. Þeir eru hinir raunverulegu fulltrúar kerfisins og kerfiskarlanna og hafa myndað meirihluta með harðlínumönnum gegn efnahagsumbótum Gorbatsjovs.

Þjóðartekjur í Sovétríkjunum minnkuðu í hittifyrra um 5% og hafa líklega minnkað um 10% í fyrra. Harðlínumenn kenna opnunarstefnu Gorbatsjovs um þetta, en raunverulega ástæðan er miðju- og málamiðlunarstefna Ryzhkovs. Á þessu mun Gorbatsjov hamra.

Haltu mér ­ slepptu mér ­ stefna Ryzhkovs minnir á Framsóknarflokkinn og íslenzku ríkisstjórnina. Stefnan byggist á að blanda saman miðstýringu og markaðsfrelsi. Hún líkist sorglega hinu séríslenzka, miðstýrða markaðskerfi. Hún heldur ekki vatni, hvorki hér né þar.

Ófarir Íslands og Sovétríkjanna eru dæmi um, að ókleift er að samræma miðstýringu og markaðsfrelsi. Þetta hafa ráðamenn í Austur-Evrópu skilið og eru því að koma á fót markaðsfrelsi án miðstýringar. Ríkisstjórn Samstöðu í Póllandi hefur forustu í þessari þróun.

Kapítalisminn, sem blossar upp um alla Austur-Evrópu, mun styrkja stöðu Gorbatsjovs heima fyrir. Fljótt mun koma í ljós, að efnahagsvandræðin verða minni, ef kerfiskarlar opinberra stofnana og sjóða verða látnir víkja úr sæti og opinberri skipulagningu hætt.

Harðlínumönnum mun varla takast að fá Rauða herinn til byltingar gegn Gorbatsjov. Herforingjarnir voru orðnir dauðþreyttir á Afganistan og eru tregir til að láta nota sig gegn fólkinu í Azerbajdzhan. Þeir munu ekki heldur láta siga sér á íbúa Eystrasaltslandanna.

Hinn raunverulegi slagur í Sovétríkjunum mun verða milli Ryzhkovs og Gorbatsjovs. Ef hinn síðarnefndi sigrar, má búast við, að haltu mér ­ slepptu mér ­ stefnan verði aflögð og að hin lýðræðislega markaðshyggja haldi innreið sína eins og í Austur-Evrópu og við Eystrasalt.

Miklir atburðir munu gerast í Sovétríkjunum á næsta ársfjórðungi. Þá kemur í ljós, að miðjan heldur ekki og að opnunarstefna Gorbatsjovs nær fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV