Miðjustjórn eða kantstjórn

Greinar

Einna sérkennilegustu afstöðu í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar hér á landi er að finna hjá ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins. Þótt sá flokkur hafi tapað mest allra flokka í kosningunum, eru oddvitar hans önnum kafnir við að leika guðshlutverk í pólitík.

Óraunsæi þeirra kemur annars vegar fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa grasrótinni í flokknum fyrir að styðja nýjan flokk til áhrifa. Hins vegar kemur það fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa forsætisráðherra fyrir að vera úr hófi vinsæll.

Viðhorf leiðtoga Sjálfstæðisflokksins eru skýrustu dæmin um, að hér á landi skipta úrslit kosninga ekki sköpum um völd í þjóðfélaginu. Hér er kosningasigur ekki talinn vera ávísun á þátttöku í ríkisstjórn, heldur fremur sem smitsjúkdómur, er einangra beri stranglega.

Ef allt væri með felldu hér á landi, væri fyrst og fremst litið á sigurvegara alþingiskosninganna sem nauðsynlega og sjálfsagða aðila að nýrri ríkisstjórn. Þar færi fremstur í flokki Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar, sem stærstan sigurinn vann.

En þvert á móti eru flestir oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um, að ekki komi til greina, að Borgaraflokkurinn taki þátt í ríkisstjórn. Meira að segja Albert sjálfur hefur látið frá sér fara, að bezt sé, að flokkur hann byrji ferilinn í stjórnarandstöðu.

Næst á eftir Borgaraflokknum var Kvennalistinn sigurvegari kosninganna. Til að sporna gegn staðreyndinni eru oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um að gera til listans meiri kröfur en til annarra um málatilbúnað, svo að hann detti sem fyrst úr myndinni.

Þriðji sigurvegari kosninganna er Alþýðuflokkurinn, sem náði hálfu Vilmundarfylgi til baka. Ef mark væri tekið á kosningaúrslitum, ætti hann að vera aðili að nýrri ríkisstjórn eins og Borgaraflokkur og Kvennalisti. Þá vantar aðeins fjórða flokkinn í þingmeirihluta.

Ekkert er til fyrirstöðu, að fjórir flokkar myndi stjórn. Það er ekki lakara mynztur en þriggja flokka stjórn og er algengt í öðrum löndum. Kenningar um annað eru bara illa dulbúin tilraun til að segja, að stjórnaraðild Sjálfstæðisflokks sé eins konar náttúrulögmál.

Fjórði flokkurinn í nýrri ríkisstjórn ætti efni málsins vegna að vera Framsóknarflokkurinn, sem tapaði nánast engu í kosningunum og getur þar á ofan lagt fram vinsælasta stjórnmálamann landsins sem forsætisráðherra. Þetta yrði fjögurra flokka miðjustjórn.

Utan stjórnar ættu að sjálfsögðu að vera þeir flokkar, sem hrundu, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag. En það er dæmigert um sambandsleysi kosningaúrslita og stjórnarmyndunar, að nú er talað um þessa tvo sigruðu flokka sem hornsteina nýrrar ríkisstjórnar.

Í kosningunum gekk bezt nýjum og nýlegum flokkum, sem töldu sér til ágætis að vera með mildari stefnu en kantflokkarnir tveir til vinstri og hægri. Niðurstaðan ætti að vera ávísun á ríkisstjórn á miðjunni, án þátttöku Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins.

Því miður er marklítið að fjalla á þennan hátt um, hver sé eðlileg niðurstaða kosninganna. Ráðamenn flokka, með oddvita Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar, telja heppilegast, að hinir sigruðu myndi ríkisstjórn, enda eigi þeir í rauninni fylgi sigurvegaranna.

Óraunsæjar hugmyndir um gamalt eignarhald á fylgi annarra og um refsingar fyrir vinsældir valda því, að nú er ekki talað um miðjustjórn heldur kantstjórn.

Jónas Kristjánsson

DV