Miðlungsveldi og minni veldi

Greinar

Heimsmálin voru einfaldari, þegar risaveldin voru tvö, annað betra og sterkara, en hitt verra og veikara. Eftir andlát Sovétríkjanna eru valdahlutföll í heiminum óskýrari en áður. Einkum hefur daprazt aginn, sem risaveldin höfðu áður á óstýrilátum smáríkjum.

Svæðisbundnir vandræðaseggir ráða meiru en á tveggja póla tímanum. Milosevits Serbíuforseta hefur tekizt að framleiða mikil vandræði á Balkanskaga og Saddam Hussein Íraksforseta hefur hvað eftir annað tekizt að standa uppi í hárinu á samfélagi ríkja.

Áður voru slíkir í skjóli annars hvors risaveldisins og lutu aga, þegar í harðbakka sló. Nú hefur Bandaríkjunum, sem sitja eitt eftir risaveldanna, ekki tekizt að verða heimslögregla. Dæmin sýna raunar, að völd Bandaríkjanna hafa minnkað við andlát Sovétríkjanna.

Sumpart stafar það af víðtækri og gamalgróinni óbeit í Bandaríkjunum á afskiptum af umheiminum. Margir líta svo á, að heimsvandamál séu eitthvað, sem innflytjendur til Bandaríkjanna hafi viljað skilja eftir, þegar þeir fluttu yfir hafið til fyrirheitna landsins.

Að nokkru stafar það af tregðu innan pólitíska geirans í Bandaríkjunum að taka afleiðingunum af stöðu heimsveldis í umheiminum. Bandaríkin borga til dæmis ekki skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar og geta því ekki lengur farið sínu fram á þeim vettvangi.

Í þriðja lagi þolir bandarískt almenningsálit ekki lengur mannfall. Þess vegna flúði bandaríski herinn frá Líbanon og Sómalíu og einkum þó frá Víetnam. Þess vegna hætti herinn við ólokið verk í Persaflóastríðinu. Heimsveldi, sem ekki þolir mannfall, er ekki heimsveldi.

Bandaríkin hafa lyppazt niður í að verða miðlungsveldi, áhrifamest ríkja heims, en samt ófært um að blása vinveittum ríkjum til sameinaðra lögregluaðgerða og ófært um að hafa sitt fram í fjölþjóðlegum samskiptum. Smákóngar standa uppi í hári stóra kóngsins.

Ekkert vald hefur fyllt skarð Sovétríkjanna eða tekið upp slakann í valdi Bandaríkjanna. Rússland er rúst af ríki, með takmarkaða getu til að hafa hemil á fyrri skjólstæðingum Sovétríkjanna, til dæmis í Serbíu og Írak. Og herinn réð alls ekki við uppreisn Tsétsjena.

Evrópusambandið hefur styrkt stöðu sína sem efnahags- og fjármálaveldi og mun gera það enn frekar með innreið evrunnar sem gjaldmiðils. Þetta vald hefur ekki færzt yfir í pólitíkina, þar sem Evrópa rambar enn út suður, þegar eitthvað bjátar á, til dæmis í Bosníu.

Evrópusambandið getur hins vegar eins og Bandaríkin, Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrisstofnunin í krafti peninga sinna haft góð áhrif til að draga úr sveiflum og kreppum í öðrum heimshlutum, þar sem ekkert heimaríki hefur reynzt geta tekið að sér forustu.

Japan hefur sett niður sem miðlungsveldi við kreppuna í Suðaustur-Asíu. Þótt japanskir bankar séu helztu lánardrottnar gjaldþrotanna í Suður-Kóreu, Indónesíu og víðar, horfa japönsk stjórnvöld máttvana á þróun mála og láta Vesturlönd um skipulag gagnaðgerða.

Komið hefur í ljós, að embættismenn stjórna Japan upp að vissu marki, en þar fyrir ofan stjórnar enginn og allra sízt hinir formlegu landsfeður stjórnmálanna. Þegar kemur að viðkvæmum utanríkismálum, segir Japan ævinlega pass. Japan fyllir engin skörð.

Við búum þannig við nokkur minni háttar veldi og eitt miðlungsveldi í heiminum, en risaveldi hafa lagzt af með brotthvarfi Sovétríkja og afturhvarfi Bandaríkja.

Jónas Kristjánsson

DV