Mikilvægur dagur

Greinar

Kjördagur sveitarstjórnarkosninga er ekki síður mikilvægur kjósendum en kjördagur alþingiskosninga. Mennirnir, sem kosnir verða, eru aðrir ­ og málefnin, sem kosið er um, eru önnur. Hvort tveggja er í sveitarstjórnarkosningum nær daglegu lífi kjósenda.

Sveitarfélögin reka drjúgan hluta hinnar almennu þjónustu við borgarana, bæði verklegrar og félagslegrar. Þau dreifa vatni, hita og rafmagni til fólks, reisa og reka skóla og heilsugæzlustöðvar í samstarfi við ríkið, og sjá um dagvistun fyrir börn og aldraða.

Í DV einum fjölmiðla hafa birzt frásagnir forvígismanna framboðslistanna í tæplega 60 sveitarfélögum um helztu baráttumálin í þessum kosningum. Þar hefur komið fram, að áherzlan er afar misjöfn, áhugaefnin ólík. Kjósendur hafa því um eitthvað að velja.

Sumir hafa lagt mesta áherzlu á verklegar framkvæmdir, svo sem gatnagerð. Aðrir hafa meiri áhuga á félagslegri þjónustu, svo sem barnaheimilum. Enn aðrir telja mest virði að efla atvinnu á staðnum, svo sem með þátttöku í hlutafélögum eða öðrum atvinnurekstri.

Þótt frambjóðendur hafi tilhneigingu til að segjast hafa áhuga á öllu, er samt ljóst af máli þeirra, að sumir þættir eru ofar í hugum þeirra en aðrir. Kjósendur munu væntanlega hafa hliðsjón af samræminu milli eigin áhugasviðs og áhugasviðs frambjóðenda.

Einnig er töluverður munur á stöðu sveitarfélaganna. Í sumum er atvinna tæp og þar vilja margir láta sveitarfélagið styðja atvinnutækifærin. Í öðrum hefur félagsleg þjónusta setið á hakanum. Í enn öðrum eru það verklegu framkvæmdirnar. Engir staðir eru eins.

Í ljósi þessa er skiljanlegt, að sveitarfélög séu borin saman í kosningabaráttunni. Til dæmis hafa verið birtar tölur með samanburði á biðlistum dagvistunarrýmis barna. Slíkan samanburð mætti raunar gera á mörgum öðrum sviðum, kjósendum til glöggvunar.

Helzt skortir á, að frambjóðendur hafi nógu víðan sjóndeildarhring. Margir sjá aðeins þau mál, sem hafa verið til umræðu árum saman. Þeir átta sig ekki á, að ýmis önnur mál munu verða lykilmál á næstu árum. Sum þeirra kunna að ráða örlögum einstakra byggða.

Hversu margir frambjóðendur í fiskiplássum gera sér t.d. grein fyrir, að þeir staðir, sem hafa aðstæður og framtak til að koma sér upp fiskmarkaði, munu soga til sín útgerð og tilheyrandi atvinnulíf frá hinum stöð unum, sem verða seinni til í þessari merku nýjung

Breytingarnar í þjóðfélaginu eru orðnar svo örar, hraðinn svo mikill, markaðurinn svo straumþungur, að mikil byggðaröskun er óhjákvæmileg á næstu árum. Byggðirnar og sveitarstjórnirnar verða afar misjafnlega búin undir þátttöku á markaðstorgi framtíðarinnar.

Slík framsýni byggist á víðsýni, sem skort hefur víða í orðum frambjóðenda í þessari kosningabaráttu ­ eins og raunar jafnan áður. Sumir eru líka fyrir löngu orðnir fangar eigin áróðurs og áróðurs málgagnanna. Það gildir bæði um reykvíska frambjóðendur og aðra.

Óhjákvæmilegt er, að þeir, sem hafa áróðursrit framboðslistanna, allt frá Morgunblaðinu yfir til Þjóðviljans, að daglegu kosningafóðri, sem þeir taka mark á, verði ruglaðir í ríminu og lítt hæfir til ákvarðana. Gildir það bæði um frambjóðendur og þá, sem kjósa þá í dag.

Mikilvægast er, að kjósendur átti sig á, að þetta er ekki dagur minni háttar kosninga, heldur dagur mikilvægra ákvarðana, sem munu hafa áhrif á framtíð allra.

Jónas Kristjánsson

DV